Freyr Alexandersson ákvað að velja aðeins einn Íslending í byrjunarlið sitt í dag. Sævar Atli Magnússon hóf leik á meðan Alfreð og Kolbeinn Birgir Finnsson byrjuðu á bekknum. Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Wahidullah Faghir gestunum yfir.
Í kjölfarið komu Alfreð og Kolbeinn Birgir inn af bekknum og átti það eftir að breyta leiknum. Það ásamt því að Adama Nagalo nældi sér í tvö gul spjöld á jafn mörgum mínútum þýddi að Lyngby sótti án afláts undir lok leiks.
Þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma jafnaði Alfreð metin og fór það svo að leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Var þetta fyrsta mark Alfreðs fyrir félagið.
Lyngby er áfram í neðsta sæti deildarinnar en eftir að hafa unnið síðasta leikinn fyrir jólafrí virðist sem Lyngby hafi loks fundið taktinn.
Aron Elís Þrándarson kom inn af bekknum í blálokin þegar OB gerði markalaust jafntefli við Randers. Aron Elís stefnir á að yfirgefa félagið í sumar. OB er í 5. sæti deildarinnar með 25 stig að loknum 18 leikjum.
Atli Barkarson lék allan leikinn í liði Sønderjyske sem gerði markalaust jafntefli við Næstved. Orri Steinn Óskarsson lék síðasta hálftímann í liði Sønderjyske en tókst ekki að þenja netmöskvana.
Sønderjyske er í 5. sæti B-deildar með 28 stig að loknum 18 leikjum.