Lögreglan í Lancashire staðfesti fyrir skömmu að líkið sem fannst í gær væri af Bulley. Líkið var fiskað upp úr ánni í gær eftir miklar aðgerðir lögreglu á svæðinu þar sem síðast hafði spurst af Bulley. Þyrla og drónar voru notaðir til að kemba ánna eftir að fólk á göngu gerði lögreglu viðvart um að þeir hefðu séð til líks, að því er segir í frétt The Guardian um málið.
Bulley hafði verið leitað logandi ljósi eftir að hún hvarf sporlaust eftir að hafa farið út að ganga með fjölskylduhundinn þann 27. janúar síðastliðinn. Til hennar sást til Bulley í grennd við ánna klukkan níu að morgni þann dag.
Einungis um 25 mínútum eftir að það sást til hennar fannst síminn hennar á bekk við árbakkann. Þá var ólin og taumurinn af hundinum á jörðinni við hliðina á bekknum. Skömmu áður en hún hvarf sporlaust hafði hún skráð sig inn á Teams-fund í símanum. Hún var enn skráð á fundinn þegar síminn fannst.
Lögreglan gagnrýnd fyrir að deila viðkvæmum persónuupplýsingum
Síðastliðinn miðvikudag hélt lögreglan blaðamannafund í tengslum við leitina að Bulley. Lögreglan hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að deila viðkvæmum persónuupplýsingum um móðurina á fundinum. Þar kom fram að hún ætti við áfengismál að stríða og væri komin með snemmbúin tíðahvörf.
Penny Mordaunt, forseti neðri deildar breska þingsins, er á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt lögregluna fyrir þetta. „Það fyrsta sem ég hugsaði um var fjölskyldan hennar. Það er nógu erfitt þegar ástvinur týnist,“ sagði Mordaunt á BBC í gær.