Handbolti

Erlendur þjálfari kemur til greina

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ.
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ. Vísir

Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, segist vera til í að skoða alla kosti í starf landsliðsþjálfara karla í handbolta.

HSÍ náði samkomulagi við Guðmund Þórð Guðmundsson í gær um að hann hætti störfum sem landsliðsþjálfari. Guðmundur var með samning fram á næsta ár.

Nafn Dags Sigurðssonar hefur oftast verið nefnt í umræðunni um arftaka Guðmundur en hann er aftur á móti ekki laus fyrr en í ágúst á næsta ári. Hann er þjálfari japanska landsliðsins.

Ef HSÍ vill fá Dag er staðan snúin. Sambandið yrði þá að ráða þjálfara til aðeins eins árs sem er væntanlega ekki ákjósanlegur kostur fyrir flesta þjálfara.

„Ég er á því að við verðum að skoða þjálfara til lengri tíma,“ segir Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, í samtali við Vísi.

„Það er annars allt óráðið í þessu. Við setjumst væntanlega niður í næstu viku og förum að ræða hvernig þjálfara við viljum, hvernig teymið þarf að vera og annað í þeim dúr. Það er að mörgu að hyggja og við viljum vanda okkur.“

Ísland á heilan aragrúa af frábærum þjálfurum sem eru að gera það gott víða um heiminn. Er HSÍ eingöngu að skoða íslenska þjálfara eða koma erlendir þjálfarar einnig til greina?

„Erlendur þjálfari kemur allt eins til greina. Af hverju ætti ég að loka hurðinni á einhvern möguleika? Það getur vel verið að við teljum það gott að fá erlendan aðila með ferska strauma inn. Það er bara allt opið í þessu en ekkert ákveðið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×