Fótbolti

Morgan sló mömmumetið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Morgan lyftir hér SheBelieves bikarnum í nótt.
Alex Morgan lyftir hér SheBelieves bikarnum í nótt. AP/LM Otero

Alex Morgan var á skotskónum og á metaveiðum þegar bandaríska kvennalandsliðið tryggði sér sigur í SheBelieves æfingamótinu í nótt.

Bandaríkin vann 2-1 sigur á Brasilíu í lokaleiknum og vann þar með þetta mót fjórða árið í röð. Mörkin skoruðu þær Alex Morgan og Mallory Swanson.

Japan tryggði sér annað sætið á mótinu með 3-0 sigri á Kanada fyrr um daginn.

Markið hennar Alex Morgan var sögulegt. Hún var reyndar að skora sitt 121. mark fyrir bandaríska landsliðið en það var ekki það sögulega við markið.

Þetta var nefnilega fjórtánda landsliðsmark hennar síðan að Morgan eignaðist dótturina Charlie Elena Carrasco í maí 2020.

Með þessu marki þá komst hún því upp fyrir Joy Fawcett sem markahæsta mamman í sögu bandaríska landsliðsins.

Joy Fawcett spilaði með bandaríska landsliðinu frá 1987 til 2004 og skoraði 27 mörk þrátt fyrir að spila sem varnarmaður. Þrettán þeirra marka komu eftir að hún eignaðist sitt fyrsta barn en hún eignaðist þrjú börn á ferlinum.

Mallory Swanson, sem var áður Pugh en tók upp eftirnafni eiginmanns sína á þessu ári, skoraði fjögur mörk á mótinu og er alls komin með sjö mörk á árinu sem er jöfnun á hennar besta ári sem var í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×