Handbolti

Dreymir um að spila fyrir Barcelona og PSG og nennir ekki að standa bara í horninu í vörn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stiven Tobar Valencia hefur slegið í gegn með Val í Evrópudeildinni í vetur.
Stiven Tobar Valencia hefur slegið í gegn með Val í Evrópudeildinni í vetur.

Stiven Tobar Valencia kveðst þakklátur fyrir að vera valinn í íslenska landsliðið. Hann dreymir um að spila fyrir stærstu lið Evrópu.

Stiven er eini nýliðinn í íslenska landsliðinu sem mætir Tékklandi í tveimur leikjum í undankeppni EM 2024 í næsta mánuði.

„Ég er tilbúinn í að taka næsta skref. Ég viðurkenni að þegar ég fékk símtalið fékk ég fiðring í magann,“ sagði Stiven í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2. Stiven segist lengi hafa dreymt um að spila fyrir landsliðið.

„Já, ég að alla sem eru í þessu sporti dreymi um að spila fyrir þjóðina og á þessu stóra sviði sem það er að spila með landsliðinu. Ég er mjög spenntur að koma á æfingu og hitta strákana.“

Stiven nýtur þess í botn að spila með Íslands- og bikarmeisturum Vals. „Við náum mjög vel saman. Það þarf mjög mikið til að toppa þessi ár mín í Val. Þetta er eitthvað sem ég held að allir nái ekki að upplifa. Stemmningin í Val og hvernig við spilum saman þetta er bara gæsahúð,“ sagði hornamaðurinn knái.

Klippa: Viðtal við Stiven

Stiven stefnir hátt og á sér draum um að spila í atvinnumennsku. Og það ekki með neinum smá liðum.

„Síðan ég hef verið polli hefur það alltaf verið Barcelona, PSG, svona stór lið. En ég er opinn fyrir öllu,“ sagði Stiven sem hefur orðið var við áhuga erlendra félaga.

Hann leggur mikla rækt við varnarleikinn og vill spila sem bakvörður í vörn.

„Hann skiptir mig mjög miklu máli. Mér finnst það koma mér meira inn í leikinn frekar en að standa bara í horninu og hlaupa fram og til baka og vera í einhverju píptesti. Það er gott að taka vörnina líka. Ef maður skítur upp á bak í sókninni getur maður bakkað sig upp í vörninni,“ sagði Stiven.

Horfa má á viðtalið við Stiven í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×