Handbolti

„Heiður að vera orðaður við íslenska landsliðið“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
 Roberto Garcia Parrondo er hér á hliðarlínunni með Melsungen.
 Roberto Garcia Parrondo er hér á hliðarlínunni með Melsungen. vísir/getty

Spænski handknattleiksþjálfarinn Roberto Garcia Parrondo segist vera til í að ræða við HSÍ hafi sambandið áhuga á því að fá hann sem arftaka Guðmundar Guðmundssonar með karlalandsliðið.

Parrondo er 43 ára gamall og er þjálfari þýska úrvalsdeildarfélagsins Melsungen sem Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson spila með. Hann tók við starfinu af Guðmundi Guðmundssyni er Guðmundur fór til Danmerkur.

Parrondo hefur einnig verið landsliðsþjálfari Egyptalands síðustu fjögur ár og lyft þar grettistaki. Liðið hefur unnið Afríkukeppnina tvisvar í röð. Liðið var næstum komið í undanúrslit á HM 2021 en tapaði fyrir Dönum í vítakeppni í einhverjum besta handboltaleik allra tíma.

Egyptar fóru svo í átta liða úrslit á nýafstöðnu HM en töpuðu þar fyrir Svíum og enduðu í sjöunda sæti. Eftir það hætti Parrondo með liðið.

„Ég hafði ekkert heyrt af því að það væri verið að orða mig við íslenska landsliðið. Ég hef samt ekkert nema gott að segja um íslenskan handbolta. Það er aðdáunarvert hversu góðum árangri Ísland hefur náð í handbolta,“ sagði Parrondo í samtali við Vísi.

„Ég verð að vera heiðarlegur og hef ekkert heyrt frá HSÍ. Ísland er frábært lið og allir þjálfarar hafa örugglega áhuga á að þjálfa liðið.“

Spánverjinn virðist vera spenntur að taka samtalið við HSÍ ef símtalið kemur úr Laugardalnum.

„Ég myndi alltaf taka símtalið. Ég er alltaf að leita að nýjum tækifærum. Ég hætti hjá Egyptum því þeir vildu að ég myndi flytja þangað en við erum flutt til Þýskalands,“ segir þjálfarinn og bætir við.

„Það er mikill heiður fyrir mig að vera orðaður við frábært lið eins og íslenska landsliðið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×