Mateusz Morawieck, forsætisráðherra Póllands, er staddur í Kænugarði en þar tilkynnti hann að fyrstu Leopard 2 skriðdrekarnir væru komnir til Úkraínu.
Þetta eru fyrstu vestrænu skriðdrekarnir sem berast til Úkraínu en verið er að þjálfa úkraínska hermenn í notkun þeirra í nokkrum ríkjum Evrópu.
Hlébarðarnir eru framleiddir í Þýskalandi og Úkraínumenn eiga von á umtalsverðu magni af þeim á komandi vikum og mánuðum. Bakhjarlar Úkraínu hafa þó verið sakaðir um hægagang varðandi skriðdrekasendingar síðan Þjóðverjar heimiluðu þær.
Pólverjar hafa heitið Úkraínumönnum minnst fjórtán skriðdreka en búið er að afhenda fjóra.
Þurftu að berjast fyrir hverjum degi
Selenskí sagði í ávarpi sínu í morgun að úkraínska þjóðin hefði sýnt sig og sannað á undanförnu ári.
„Við lifðum fyrsta dag stríðsins af. Við vissum ekki hvað annar dagurinn bæri í skauti sér en við skildum vel að við þyrftum að berast fyrir hverjum morgundegi og við börðumst,“ sagði Selenskí.
„Við erum orðin ein fjölskylda. Það eru engir ókunnugir meðal okkar,“ sagði Selenskí. „Úkraínumenn hafa skýlt Úkraínumönnum, opnað heimili sín og hjörtu gagnvart þeim sem hafa þurft að flýja þetta stríð.“
Hann sagði að úkraínska þjóðin hefði þurft að þola margt á undanförnu ári. Stórskotaliðsárásir, klasasprengjur, stýriflaugar, sjálfsprengidróna, rafmagnsleysi og kulda. Það hefði ekki dugað til að brjóta Úkraínumenn á bak aftur og að þeir myndu gera allt sem í valdi þeirra stæði til að sigra Rússa á þessu ári.
On February 24, millions of us made a choice. Not a white flag, but the blue and yellow one. Not fleeing, but facing. Resisting & fighting.
— (@ZelenskyyUa) February 24, 2023
It was a year of pain, sorrow, faith, and unity. And this year, we remained invincible. We know that 2023 will be the year of our victory! pic.twitter.com/oInWvssjOI
Hart barist í austri
Þó ár sé liðið frá því Rússar réðust inn í Úkraínu hafa úkraínskir hermenn og rússneskir barist í austurhluta landsins frá árinu 2014, þegar aðskilnaðarsinnar í Dónetsk og Lúhansk lýstu yfir sjálfstæði og með aðstoð Rússa börðust gegn úkraínska hernum.
Enn er barist í þessum tveimur héruðum, sem saman mynda Donbas svæðið svokallaða. Rússar hafa staðið í umfangsmiklum árásum þar en án mikils árangurs hingað til.
Sérfræðingar búast við því að Úkraínumenn ætli sér gagnárásir gegn Rússum þegar vorið nálgast og að þeir muni meðal annars notast við nýjar hersveitir sem notast munu við vestræna bryn- og skriðdreka.