Erlent

Af­hjúpa ný­upp­götvað hólf í Pýramídanum mikla

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn á úlföldum fyrir framan Pýramídann mikla á Giza.
Lögreglumenn á úlföldum fyrir framan Pýramídann mikla á Giza. AP/Hassan Ammar

Egypsk fornleifayfirvöld sviptu hulunni af nýuppgötvuðu og lokuðu hólfi í Pýramídanum mikla í Giza í gær. Óljóst er hver tilgangur hólfsins var en það er ekki aðgengilegt utan frá.

Fornleifafræðingar notuðu óm- og radartæki til þess að finna ganginn sem er í norðurhlið Keopspýramídans, stærsta og elsta af pýramídunum þremur miklu. Hann er níu metra langur og tveggja metra breiður og er fyrir ofan aðalinngang pýramídans.

Christian Grosse, prófessor við Tækniháskólann í München í Þýskalandi og einn forkólfa verkefnisins, segist vonast til þess að tæknin sem voru notuð eigi eftir að afhjúpa fleiri leyndardóma pýramídans.

„Það eru tveir stórir kalksteinar við enda hólfsins og nú er spurningin hvað er á bak við þessa steina og fyrir neðan hólfið,“ segir Grosse.

AP-fréttastofan segir að vegna þess að sérfræðingum greini á um hvernig pýramídarnir voru byggðir veki jafnvel minniháttar uppgötvunar mikla athygli.

Pýramídinn mikli er kenndur við Keop eða Khufu, faróa af fjórðu faróaætt Egyptalands, sem ríkti á milli 2509 og 2483 fyrir krist. Hann eina undrið af sjö undrum veraldar til forna sem hefur staðist tímans tönn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×