„Við þurfum að vera miklu meira smart í okkar leik. Í þriðja leikhluta vorum við bara fastir fyrir utan þriggja stiga línuna, vorum ekkert að ráðast á þá. Ég veit ekki hvaða kjaftæði þetta var.“
Hjalti var spurður hvort hann tæki undir það að það væri stemningsleysi í kringum Keflavíkurliðið.
„Ég veit það ekki. Kannski virkar það þannig þegar við erum undir. Stemningin innan hópsins er mjög góð.“
Hjalti hefur á sínum ferli upplifað að tapa þremur leikjum í röð en aldrei sem þjálfari Keflavíkur.
„Við þurfum að rífa okkur upp, vitum að getum gert betur á öllum sviðum og þurfum sem lið að taka okkur saman í andlitinu.“
Hann hefur talað um „off“ daga í vinnunni eftir tapleiki. Nú eru tapleikirnir þrír í röð. Þarf að fara í alvarlega naflaskoðun?
„Það vantar Hörð [Axel Vilhjálmsson] og Valur [Orri Valsson] var ekki búinn að vera með okkur í einhverja tíu daga vegna veikinda. Það auðvitað riðlar skipulagi liðsins að vera ekki með þá til að stýra leik liðsins.“
„Við erum búnir að leggja mikla áherslu á varnarleik en það hefur greinilega farið inn um annað og út um hitt.“
Hjalti var spurður hvort hann hefði miklar áhyggjur af stöðunni. „Það eru fjórir leikir eftir, við þurfum að gíra okkur í gang og gera þetta í sameiningu,“ sagði þjálfari Keflavíkur að lokum.