Erlent

Veitingarekstur í Japan í uppnámi vegna „sushi-terrorista“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það þarf bara einn til að eyðileggja fyrir öllum.
Það þarf bara einn til að eyðileggja fyrir öllum. Getty

Veitingakeðjur í Japan sem hafa boðið upp á sushi á færibandi íhuga nú að skipta yfir í hefðbundna þjónustu þar sem maturinn er borinn á borð af þjónum. Ástæðan er faraldur óprúttinna aðila sem leikur sér að því að eiga við matinn.

Veitingakeðjan Choshimaru, sem rekur 63 veitingastaði í Japan, hefur þegar ákveðið að allur matur verði héðan í frá borinn á borð, þar sem það sé ómögulegt að tryggja að hrekkjalómar eigi ekki við hann ef hann skilar sér á færibandi.

Þetta hefur ekki verið vandamál hingað til en neytendur eru nú uggandi vegna fjölda mynskeiða sem hafa ratað á samfélagsmiðla á síðustu misserum, þar sem einstaklingar leika sér að því að eiga við mat þegar hann fer framhjá á færibandinu; til að mynda sleikja hann eða spreyja með handsótthreinsi.

Myndskeiðin hafa orðið til þess að hlutabréf í Sushiro, einni stærstu veitingakeðjunni, hafa hríðlækkað.

Á meðan sumir hafa ákveðið að falla frá færibandaþjónustunni hafa aðrir gripið til annarra ráða. Forsvarsmenn Kura Sushi hafa til að mynda greint frá því að þeir muni koma upp eftirlitskerfi með gervigreind, sem mun flagga „skrýtna hegðun“ eins og að taka disk af færibandinu en skila honum svo aftur.

Hegðun hinna óforskömmuðu hefur einnig haft áhrif á starfsemi annarra veitingastaða, sem hafa ákveðið að fjarlægja meðlæti á borð við sósur og krydd af borðum. Sumir hafa einnig ákveðið að fjarlægja allan borðbúnað sem hefur staðið frammi og afhenda aðeins þegar gestir hafa pantað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×