Handbolti

„Verður lúxusvinna fyrir HSÍ að finna lands­liðs­þjálfara því það eru margir sem vilja þjálfa Ís­land“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórir Hergeirsson er sigursælasti landsliðsþjálfari sögunnar.
Þórir Hergeirsson er sigursælasti landsliðsþjálfari sögunnar. epa/Zsolt Czegledi

Þórir Hergeirsson hefur ekkert leitt hugann að því hvort hann sé inni í myndinni sem næsti þjálfari íslenska karlalandsliðsins. Hann segir að HSÍ ætti ekki að vera í vandræðum með að finna réttan aðila en hann þurfi að vera í fullu starfi.

Þórir er einn þeirra sem hefur verið nefndur sem mögulegur eftirmaður Guðmundar Guðmundssonar með karlalandslið Íslands. Sjálfur hefur hann samt ekkert velt því fyrir sér enda í góðu starfi sem þjálfari besta kvennalandsliðs heims, þess norska.

„Nei, ég hef ekkert spáð í það. Ég er í starfi sem ég þrífst vel í og er á miðju samningstímabili og markmiðið er að klára það. Ég er þannig að ég vil klára verkefnin sem ég byrja á,“ sagði Þórir í samtali við Vísi. Hann er samningsbundinn norska handknattleikssambandinu fram yfir Ólympíuleikana í París á næsta ári.

Bestu kostirnir í karlaboltanum

Þórir telur að það ætti ekki að vera vandamál fyrir HSÍ að finna nýjan landsliðsþjálfara enda margir færir þjálfarar sem komi til greina og starfið spennandi.

„Bestu valkostirnir á nýjum landsliðsþjálfara Íslands er að finna í karlaboltanum. Ég hef ekki verið viðloðandi hann í svolítinn tíma. Það eru margir góðir kostir, bæði íslenskir og erlendir. Ég held að þetta verði bara lúxus vinna fyrir HSÍ að finna landsliðsþjálfara því það eru margir sem vilja þjálfa Ísland. Þetta er spennandi lið en ýmislegt sem þarf að vinna með,“ sagði Þórir.

Verður að vera í fullu starfi

Hann segir nauðsynlegt að næsti þjálfari íslenska landsliðsins verði í fullu starfi og þjálfi ekki félagslið meðfram.

„Ég vona bara að HSÍ ráði mann í fulla vinnu. Þetta er bara orðið þannig að ef það á að gera þetta almennilega og fylgja eftir öllu í kringum þetta þarf að sinna þessu hundrað prósent. Það er gífurlega mikið álag að þjálfa landslið og félagslið á sama tíma. Það er aldrei hvíld,“ sagði Þórir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×