Fótbolti

Dagur Dan lagði upp gegn lærisveinum Rooney

Smári Jökull Jónsson skrifar
Dagur Dan í leik Orlando City og Cincinnati FC.
Dagur Dan í leik Orlando City og Cincinnati FC. Orlando City

Dagur Dan Þórhallsson var í byrjunarliði Orlando þegar liðið gerði jafntefli við lærisveina Wayne Rooney í D.C. United í MLS-deildinni í nótt.

Dagur Dan gekk til liðs við Orlando í vetur en þetta er annar leikurinn í röð þar sem hann er í byrjunarliði liðsins. Guðlaugur Victor Pálsson var á bekknum hjá D.C. United og kom ekkert við sögu.

Orlando tók forystuna í leiknum þegar Duncan McGuire skoraði eftir sendingu frá Degi Dan í upphafi seinni hálfleiks en Dagur Dan skallaði þá boltann fyrir markið þar sem McGuire potaði boltanum inn. 

Heimamenn í D.C. United náðu hins vegar að jafna metin þegar Chris Durkin skoraði. Orlando er nú með fimm stig eftir þrjár umferðir en D.C. United er með fjögur stig í sætinu fyrir neðan.

New York City lagði Miami, lið David Beckham, 1-0 á heimavelli. Eina mark leiksins var sjálfsmark Christopher McVey en þetta var fyrsta tap Miami í vetur. 

Önnur úrslit í nótt:

Cincinnati - Seattle 1-0

Philadelphia - Chicago 1-0

Toronto - Columbus 1-1

Kansas City - LA Galaxy 0-0

Minnesota - New York Red Bull 1-1

Nashville - Montreal 2-0

Salt Lake - Austin 1-2

Portland - St. Louis 1-2

San Jose - Colorado 1-0




Fleiri fréttir

Sjá meira


×