Frá þessu greinir Morgunblaðið.
Fjölmiðlar sögðu frá því í janúar síðastliðnum að Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður Gunnars Sigurjónssonar, fyrrverandi sóknarprests í Digraneskirkju, hefði sent erindi á Drífu þar sem hún óskaði eftir því að Drífa úrskurðaði um hæfi Agnesar til að taka ákvarðanir um Gunnar.
Gunnar hafði verið látinn fara úr Digranesprestakalli í kjölfar ásakana um einelti og kynferðislega áreitni.
Auður sagði í erindi sínu að Agnes M. Sigurðardóttir biskup hefði verið skipuð í embætti af forseta Íslands til fimm ára frá og með 1. júlí 2012 en í lok þess skipunartíma hefði skipunartíminn framlengst sjálfkrafa um önnur fimm ár, til 30. júní 2022.
Kirkjuþing breytti reglum um kosningu biskups í fyrra þannig að kjörtímabil hans er nú sex ár en Auður sagði þetta ekki þýða að skipunartíminn framlengdist sjálfkrafa.
Pétur Georg Markan, biskupsritari, sagði í samtali við Vísi í janúar að staða biskups væri lagalega örugg og mögulega væri um að ræða útspil til að afvegaleiða umræðuna.
Morgunblaðið hefur eftir Drífu að tillögu að breyttum starfsreglum um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa hafi verið vísað til löggjafanefndar kirkjuþings.