Finnar og Svíar sóttu saman um aðild að Atlantshafsbandalaginu í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og hafa viljað fá inngöngu saman. Það hefur þó gengið erfiðlega og þá að miklu leyti vegna mótmæla yfirvalda í Tyrklandi gegn inngöngu Svía en Tyrkir saka Svía meðal annars um að hýsa hryðjuverkamenn.
Tyrkir hafa krafist þess að fá sænska Kúrda framselda til Tyrklands og aðila sem þeir segja tengjast valdaránstilraun árið 2016. Bæði Finnar og Svíar hafa að einhverju leyti komið til móts við Tyrki og meðal annars aflétt vopnasölubanni sem sett var á Tyrki eftir innrás þeirra í Sýrland árið 2019.
Heimildarmenn Reuters fréttaveitunnar í Tyrklandi segja að ákvörðun hafi verið tekin um að fjalla um umsóknir Finna og Svía í sitthvoru lagi. Að umsókn Finna gæti verið samþykkt fyrir kosningarnar í Tyrklandi í maí.
Eins og fram kemur í frétt YLE, finnska ríkisútvarpsins, mun Sauli Niinistö, forseti Finnlands, ferðast til Tyrklands á morgun og hitta þar Erdogan. Niinistö á von á því að honum verði tilkynnt að umsókn Finna verði samþykkt en heimildarmenn YLE segja að forsetinn muni samþykkja lagafrumvarp um aðild Finnlands að NATO í næstu viku.
Yfirvöld í Ungverjalandi eiga einnig eftir að samþykkja umsóknirnar, eða hafna þeim, en öll önnur aðildarríki NATO hafa samþykkt þær.
Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði í gær að líkurnar á því að Finnland muni ganga í NATO á undan Svíþjóð hafi aukist. Það er eftir að erindrekar Finnlands og Svíþjóðar ræddu við erindreka Tyrklands í Brussel fyrr í vikunni.