Breytingartillögurnar hafa almennt verið felldar með 32 atkvæðum; 15 segja yfirleitt já og 5 greiða ekki atkvæði. Það eru jafnan þingmenn Flokks fólksins sem ekki hafa greitt atkvæði með eða á móti.
Óhætt er að segja að málið hafi verið umdeilt en fjölmargir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gagnrýnt frumvarpið harðlega. Á þingfundinum sem nú stendur yfir þurfti Birgir Ármannsson forseti Alþingis að biðja gest á þingpöllum um að hafa hljóð, en einn heyrðist saka þingmenn um misnotkun á valdi.
Arndís Anna Katrínardóttir Gunnarsdóttir hefur reglulega tekið til máls á Alþingi í kvöld og hafa Píratar staðið fyrir mörgum breytingartillögum á frumvarpinu. Þingmenn flokksins gagrýndu ákvæði frumvarpsins sem þau telja torvelda endurupptöku mála og segja það setja hættulegt fordæmi.
Herbergi fullt af myglu
Arndís Anna veltir upp mikilvægi ákvæðis um að útlendingur teljist ekki umsækjandi um alþjóðlega vernd ef máli hans hefur verið lokið á stjórnsýslustigi.
„Það er hvorki í þágu skilvirkni, sparnaðar fyrir ríkissjóð né í þágu mannúðar - það er ekki í þágu eins eða neins, þessi breyting. Hún snýst um það að svelta flóttafólk til hlýðni, treysta á það að með því að henda þeim út á götuna allslausum að þá muni þeir loksins drífa sig heim. Þeir hljóta að hanga hérna vegna þess að þau fá tíu þúsund á viku, búa í einhverju herbergi, fullu af myglu með einhverju bláókunnugu fólki. Það er aðdráttarafl sem þarf að taka út, er það ekki,“ spurði Arndís Anna.
Margir þingmenn hafa ákveðið að gera sérstaklega grein fyrir atkvæðum sínum.
„Þetta er nú sennilega eitt versta ákvæðið í þessu frumvarpi, eitt af því sem mest hefur verið rætt um í meðförum nefndarinnar og eitt af því sem hefur verið gagnrýnt hvað helst af þeim sem hafa komið fyrir nefndina, þeir sem hafa sérfræðiþekkingu til að meta hverjar afleiðingarnar verða. Það er verið að leggja það hér til að þessi tiltekna grein falli á brott, ég greiði heilshugar atkvæði með því og hvet aðra til að gera það sama. Ég segi já,“ sagði Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar.