Erlent

Ekkert lát á mót­mælum í Frakk­landi

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Frakkar eru ekki ánægðir með áform Emmanuels Macron.
Frakkar eru ekki ánægðir með áform Emmanuels Macron. Lewis Joly/AP

Ekkert lát er á mótmælum í Frakklandi vegna ákvörðunar forsetans Emmanuel Macron um að þröngva hækkun á eftirlaunaaldri þar í landi í gegnum þingið. Íbúar héldu út á götu í gærkvöldi, þriðja kvöldið í röð, og til átaka hefur komið milli mótmælenda og lögreglu. 

Mótmælendur hafa kveikt í ruslahaugum í París, þar sem sorphirðumenn eru í verkfalli, á meðan lögregla hefur beitt táragasi. Þá hefur mótmælendum verið bannað að safnast saman í miðbænum en ríflega áttatíu manns voru handteknir í gær.

Kallað hefur verið eftir afsögn Macron og meðlimir stjórnarandstöðunnar lögðu fram tvær vantrauststillögur gegn ríkisstjórn Frakklands á föstudag, sem þingmenn greiða atkvæði um á morgun. Nokkrir meðlimir stjórnarandstöðunnar eru þó sagðir andvígir tillögunni og bindur ríkisstjórnin því vonir við að standa af sér vantraust.

Verði tillagan samþykkt mun það þó leiða til þess að hækkun eftirlaunaaldurs verði dregin til baka og ríkisstjórnin mun þurfa segja af sér en Macron myndi sitja áfram. Jafnvel þó tillögunni yrði hafnað telja sérfræðingar mögulegt að Macron myndi hrista upp í ríkisstjórninni til að friða mótmælendur og jafnvel boða til nýrra þingkosninga, þó það sé talið ólíklegt á þessum tímapunkti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×