Handbolti

„Eina þjálfarastarfið sem ég hef áhuga á“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristján Andrésson stýrði Svíum til silfurverðlauna á EM 2018.
Kristján Andrésson stýrði Svíum til silfurverðlauna á EM 2018. vísir/epa

Starf landsliðsþjálfara Íslands í handbolta er eina þjálfarastarfið sem Kristján Andrésson vill sinna.

Í gær var greint frá því að Kristján hætti sem íþróttastjóri Eskilstuna Guif um miðjan maí. Í samtali við Vísi í dag sagði hann að fjárhagslegar ástæður lægju þar að baki, að ekki væri til peningur til að halda starfi íþróttastjóra lengur úti.

Kristjáni bauðst að taka við þjálfun Guif en hafnaði því. „Það hentar ekki að vera þjálfari félagsliðs af fjölskylduástæðum. Maður er þá bundinn frá fjögur til sjö alla daga, konan mín er í vinnu og við erum með tvo stráka, tólf og sjö ára,“ sagði Kristján. 

Hann þekkir starf aðalþjálfara Guif betur en flestir en hann sinnti því á árunum 2007-16. Kristján lýkur störfum hjá Guif eftir um tvo mánuði og er eins og staðan er núna í atvinnuleit.

Kristján er meðal þeirra sem hefur verið orðaður við starf landsliðsþjálfara Íslands og hann kveðst verulega spenntur fyrir því.

„Eins og staðan er núna er þetta eina þjálfarastarfið sem ég hef áhuga á,“ sagði Kristján sem var þjálfari sænska landsliðsins í þrjú og hálft ár (2016-20). Hann segir að starf landsliðsþjálfara henti betur hvað fjölskylduaðstæður varðar.

En hefur HSÍ haft rætt við Kristján?

„Nei, en það væri ekki leiðinlegt ef HSÍ hefði samband,“ svaraði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×