„Hvurslags manneskja getur ákært aðra, í þessu tilfelli fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, sem fékk fleiri atkvæði en nokkur annar forseti í sögunni, og leiðir (með miklum mun) baráttuna um tilnefningu Repúblikanaflokksins, fyrir glæp, þegar allir vita að enginn glæpur var framinn, og einnig er vitað að mögulegur dauði og eyðilegging með slíkri falskri ákæru gæti verið hörmuleg fyrir land okkar?“ skrifaði Trump í svokölluðum sannleik á samfélagsmiðli sínum, Truth Social.
Trump svaraði sjálfum sér og sagði að einungis „úrkynjaður geðsjúklingur sem hatar Bandaríkin“ gæti gert það. Þetta skrifaði Trump er klukkan var að ganga tvö í nótt, að staðartíma.
Fyrr í gær hafði Trump dreift mynd af sér halda á hafnaboltakylfu við hliðina á mynd af Alvin Bragg, áðurnefndum umdæmissaksóknara í Manhattan.
Sjá einnig: Trump sagður spenntur fyrir því að vera handjárnaður
Rannsaka greiðslu til klámleikkonu
Bragg hefur á undanförnum mánuðum rannsakað 130 þúsund dala greiðslu Michaels Cohens, þáverandi einkalögmanns Trumps, til Stephanie Clifford, fyrrverandi klámleikkonu sem gengur einnig undir nafninu Stormy Daniels, skömmu fyrir forsetakosningarnar 2016.
Greiðslan var fyrir þögn hennar en Clifford hefur haldið því fram að hún hafi sængað hjá Trump skömmu eftir að Melania Trump eignaðist Barron Trump árið 2006.
Bragg og ákærudómstóll sem hann skipaði eru að kanna hvort lög varðandi kosningar í Bandaríkjunum hafi verið brotnar en Cohen greiddi Clifford úr eigin vasa og Trump greiddi Cohen. Rannsóknin hefur meðal annars snúist um það hvort greiðsluna megi skilgreina sem framlög til framboðs Trump og fer það langt yfir hámarkið sem einstaklingar mega gefa til framboðs stjórnmálamanns, sem er 2.700 dalir.
Ákærudómstóll er fyrirbæri vestanhafs (e. Grand jury) þar sem kviðdómendur eru fengnir til að fara yfir vitnisburð og gögn í ákveðnum málum og kanna hvort þeim þyki tilefni til að leggja fram ákærur vegna meintra brota.
Sagði að hann yrði handtekinn
Trump sagði sjálfur í síðustu viku að hann yrði ákærður og handtekinn á þriðjudaginn í þessari viku. Það gerðist ekki en fregnir hafa borist af því að rannsókn Bragg sé langt á veg komin.
Washington Post hefur eftir heimildarmönnum sínum að meðlimir ákærudómstólsins muni ekkert funda um rannsóknina fyrr en í fyrsta lagi á mánudaginn.
Trump hefur einnig haldið því fram að Bragg sé handbendi George Soros. Sá er ungverskur auðmaður og mannvinur sem er vinsælt skotmark samsæringa.
Forsetinn fyrrverandi hefur kallað eftir umfangsmiklum mótmælum en hingað til hafa tiltölulega fáir látið sjá sig á mótmælum vegna rannsóknar Bragg.
Trump er einnig til rannsóknar af Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna og saksóknurum í Georgíu vegna opinberra og leynilegra gagna sem hann telur sig eiga og tilrauna hans til snúa niðurstöðum forsetakosninganna 2020, svo eitthvað sé nefnt.