Fótbolti

Snýr aftur átta árum eftir að hafa hrökklast úr deildinni vegna á­reitis

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sinead Farrelly spilar með Gotham FC í táknrænni endurkomu í deildina.
Sinead Farrelly spilar með Gotham FC í táknrænni endurkomu í deildina. Gotham FC

Það er aldrei of seint að byrja aftur og margir hafa gaman að sjá aftur eina stærsta hetjuna í baráttunni gegn kynferðismisnotkun og ofbeldi hjá þjálfurum í bandarísku kvennadeildinni í fótbolta.

Sinead Farrelly hefur ekki spilað í NWSL deildinni í Bandaríkjunum í átta ár. Hún hefur nú gert eins árs samning við Gotham FC á New York svæðinu og verður því liðsfélagi íslensku landsliðskonunnar Svövu Rós Guðmundsdóttur á komandi tímabili.

Farrelly er frægust fyrir því að hafa opinberað meðferð sína þegar hún lék með Portland Thorns fyrir átta árum. Hún hrökklaðist út úr deildinni á sínum tíma og hætti aðeins 27 ára gömul.

Hún sagði þar frá kynferðisáreiti og þvingunum að hálfu þjálfarans Paul Riley en fyrrum liðsfélagi hennar, Mana Shim, hafði einnig sömu sögu að segja.

Í framhaldinu fór í gang sjálfstæð rannsókn fyrir bandaríska knattspyrnusambandsins sem og sameiginleg rannsókn á vegum NWSL deildarinnar og leikmannasamtakanna á kynferðismisnotkun og ofbeldi í deildinni.

Riley var einn af fjórum þjálfurum sem fengu lífstíðarbann frá NWSL-deildinni.

„Ég þakklát fyrir allan stuðninginn sem ég hef fengið á leið minni hingað af því að ég hefði aldrei getað gert þetta ein,“ sagði Sinead Farrelly.

Farrelly spilaði fyrir yngri landslið Bandaríkjanna og á að baki 52 leiki í NWSL-deildinni fyrir bæði Portland Thorns og Kansas City.

„Sinead er ekki aðeins afburðar íþróttamaður heldur einnig ein af aðdáunarverðasta fólkinu í okkar íþrótt. Hún kom í æfingabúðir okkar og vann sér inn samning með frábærri frammistöðu. Ég veit að hún sér þetta sem fyrsta skrefið en við öll hjá Gotham FC erum stolt að vera hluti af ferðalagi Sinead. Við erum öll spennt að sjá hvaða gæði hún kemur með inn í okkar lið,“ sagði Yael Averbuch West, framkvæmdastjóri Gotham FC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×