Verkefnið Kjarval, álfar og tröll hefur staðið yfir frá því í janúar en börnin hafa með margvíslegum aðferðum kynnt sér listmálarann Kjarval. Þau hafa málað úti í náttúrunni, opnað vinnustofu Kjarvals í dúkkukrók og nú síðast samið rapp um Kjarval.
Deildarstjóri segir að kveikjan hafi verið frá barni sem vildi fá að rappa um Kjarval. Kennararnir ákváðu síðan að stækka hugmyndina og fá alla með.
„Við skiptum börnunum niður í hópa og skrifuðum niður allt sem þau sögðu um Kjarval. Þetta eru alfarið þeirra orð. Þetta eru ekki við að segja hvað okkur finnst um Kjarval heldur eru þetta þeirra orð, frá a-ö. Svo erum við núna bara komin í stúdíó til að taka þetta lengra,“ segir Erna Agnes Sigurgeirsdóttir deildarstjóri á Kvistaborg.
Lagið verður síðan gefið út á Spotify við setningu barnamenningarhátíðar þann 18. apríl næstkomandi.
„Mér finnst þetta verkefni Kjarval, álfar og tröll í Kvistaborg, sýna það og sanna hvað börn eru ótrúlega merkilegar manneskjur, hvað þau hafa ótrúlega margt fram að færa, hvað þau eru hæf og að við verðum að hlusta á raddir þeirra.“