Fótbolti

Liðsfélagi Svövu fór aftur inn á með olnbogann í „fatla“ og skoraði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lynn Williams er hörkutól og sýndi það og sannað í fyrsta leik tímabilsins.
Lynn Williams er hörkutól og sýndi það og sannað í fyrsta leik tímabilsins. Getty/Daniela Porcelli

Lynn Williams var hetja Gotham liðsins í fyrsta leik liðsins í bandarísku atvinnumannadeildinni.

Williams skoraði sigurmarkið í leiknum þar sem Gotham vann 2-1 sigur á Angel City.

Íslenska landsliðskonan Svava Rós Guðmundsdóttir kom inn á í hálfleik þegar Gotham var 1-0 undir. Gotham jafnaði úr vítaspyrnu og sigurmark Williams kom síðan á 64. mínútu.

Það sem gerði sigurmarkið enn merkilegra, fyrir utan að gefa liðinu öll stigin og að Lynn Williams væri að spila sinn fyrsta leik fyrir félagið, er að flestir leikmenn hefði eflaust verið komnar af velli.

Williams datt nefnilega illa í fyrri hálfleik eftir að hafa farið upp í skallaeinvígi. Hún meiddist á olnboga við fallið. Hún lét hins vegar teipa olnbogann sinn í 90 gráðu beygju og hélt leik áfram.

Þegar hún skoraði sigurmarkið mátti greinilega sjá að hún gat ekki beitt olnboganum eðlilega. Það kom þó ekki í veg fyrir að hún þandi netmöskvanna.

Eftir leik talaði hún um að hún þyrfti að láta líta á þessi meiðsli og að hún væri á leið í myndatöku. Hún sagði líka að það hefði aldrei komið til greina af hennar hálfu af fara af velli vegna þessara meiðsla enda spili maður fótbolta með fótunum en ekki höndunum eins og hún orðaði það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×