Þetta kemur fram í uppfærslu á vef Veðurstofunnar, þar sem fjallað er um snjóflóð gærdagsins.
Veður hefur skánað á Austfjörðum sem hefur gefið snjóathugunarmönnum færi á að kanna aðstæður.
„Í Neskaupstað hafa ummerki sést um fleiri snjóflóð eftir að skyggni batnaði. Stórt flóð féll úr Bakkagili en það náði ekki húsum. Snjóflóð féll einnig úr Skágili og lenti utan í skógrækt og síðan á varnarkeilum og alla leið niður á varnargarðinn undir Drangagili. Úr Ytra-Tröllagili fór snjóflóð sem nær niður að varnarkeilum. Áður var vitað um snjóflóð úr Nesgili sem féll á fjölbýlishús við Víðimýri í gærmorgun og snjóflóð úr Miðstrandargili (Miðstrandarskarði) sem féll út í sjó meðfram leiðigarði innan við þéttbýlið. Einnig fór snjóflóð yfir veg í Fannardal,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Engin snjóflóð hafa sést á Eskifirði en þar var ráðist í rýmingu í gær af öryggisástæðum. Eitt snjóflóð náði út á veg við álverið í Reyðarfirði.

Á Seyðisfirði féll snjóflóð úr Bjólfsöxl á mannlaust hús utan við þéttbýlið, og talið er að fleiri flóð hafi fallið í Bjólfi en að þau hafi verið lítil.
Mörg þessara flóða eru frekar þunn og virðast hafa farið hratt og getur verið erfitt að sjá ummerki um þau þegar birtuskilyrði eru slæm.
„Mikill snjór er til fjalla víða á svæðinu og veikleiki virðist vera útbreiddur. Rýmingar eru í gildi í Neskaupstað, á Eskifirði og Seyðisfirði. Veður ætti að haldast þokkalegt í dag og dregið hefur verulega úr snjóflóðahættu frá því í gær, en ekki er hægt að útiloka stöku snjóflóð á meðan ennþá éljar og skefur aðeins til fjalla. Á morgun bætir í úrkomu á ný með vaxandi vindi í austlægri átt. Spáð er mikilli úrkomu fram á laugardag. Heldur hlýnar og gæti orðið slydda í byggð en snjókoma til fjalla. Viðbúið er að snjóflóðahætta aukist á ný á Austfjörðum í þessu veðri.“