Karl verður fyrsti þjóðhöfðingi Bretlands sem ávarpar þýska þingið, en litið er á heimsóknina sem lið í því að bæta samskipti Bretlands og Evrópusambandsríkjanna eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
Upphaflega stóð til að Karl og Kamilla, eiginkona hans, myndu fyrst heimsækja Frakkland en ákveðið var að aflýsa þeirri heimsókn vegna hinna víðtæku verkfalla og harðra mótmæla í landinu vegna breytinga Emmanuel Macron Frakklandsforseta á lífeyriskerfinu.
Frank-Walter Steinmeier Þýskalandsforseti og eiginkona hans, Elke Büdenbender, munu taka á móti Karli og Kamillu við Brandenborgarhliðið síðar í dag og að því loknu verður hátíðarkvöldverður í höllinni Bellevue.
Reiknað er með að Steinmeier og Karl munu ræða sjálfbærni og orkuskipti, en Karl hefur lengi haft mikinn áhuga á umhverfismálum.
Á fimmtudag munu Karl og Kamilla svo funda með Olaf Scholz kanslara og Franziska Giffey, borgarstjóra Berlínar. Karl og Kamilla munu svo einnig heimsækja Hamborg áður en þau halda aftur til Bretlands, að því er segir í frétt Deutsche Welle.