Innlent

Markmiðið að hlúa að íbúum eftir áfall síðustu daga

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Viðbragðsaðilar hafa verið að störfum frá því á mánudag en nokkur þreyta er komin í mannskapinn að sögn lögreglustjóra. 
Viðbragðsaðilar hafa verið að störfum frá því á mánudag en nokkur þreyta er komin í mannskapinn að sögn lögreglustjóra.  Landsbjörg

Viðbúið er að rýmingum verði aflétt í miklum mæli á Austfjörðum í dag en ekki er útlit fyrir að hægt verði að aflétta alls staðar strax. Mikil úrkoma er á svæðinu samhliða hlýindum og hafa flóð fallið nokkuð víða. Lögreglustjóri á Austurlandi segir markmiðið nú vera að hlúa að íbúum en ljóst sé að langtímaáhrif séu áföllum sem þessum.

Hættustig er áfram í gildi vegna ofanflóða í Neskaupstað, á Seyðisfirði, Fáskrúðsirði og Stöðvarfirði og er gul viðvörun á svæðinu vegna rigningar og asahláku samhliða hlýindum. Líkur eru á talsverðri rigningu fram undir hádegi á morgun.

Rýmingum hefur verið aflétt í dag á þó nokkrum reitum á Seyðisfirði, Eskifirði og Neskaupstað og frekari afléttingar væntanlegar í dag. Eftir hádegi var þó ákveðið að rýma nokkrar götur á Fáskrúðsfirði og eru rýmingar enn í gildi víða.

„Staðan hefur farið batnandi og hætta á þessum löngu og stóru flóðum hefur farið minnkandi en nú er aftur á móti komin ákveðin krapaflóðahætta. Við erum ekki að aflétta öllum rýmingum en þetta er allt á góðri leið ef ég get orðað það þannig,“ segir Margrét María Sigurðardóttir, lögreglustjóri á Austurlandi.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er unnið að opnun vega en krapaflóð hafa verið að falla á vegi, einna helst á Fáskrúðsfjarðarströndinni og í Fannardal. Mikið vatn er á svæðinu og erfitt hefur reynst að opna ákveðna vegi.

Vegurinn um Fjarðarheiði var þó opnaður í dag sem og vegurinn frá Norðfjarðargöngum til Neskaupstaða og frá Fáskrúðsfirði til Stöðvafjarðar, en þar eru þó þrengingar á veginum. Unnið er að opnun á veginum um Vatnsskarð eystra og veginum um Fagradal, en opnun þar getur tekið talsverðan tíma.

Tryggja þurfi að fólkið komi vel út úr ástandinu

Ekki er vitað til þess að tjón hafi hlotist af krapaflóðum en viðbragðsaðilar standa enn vaktina.

„Þetta hefur verið þannig verkefni að það byrjar á einn hátt og svo hefur það þróast. Þannig verkefnið er engan veginn búið en það sem við stöndum frammi fyrir núna er að það er komin mikil þreyta í mannskapinn, það er búið að standa lengi erfiðar vaktir hjá okkur,“ segir Margrét.

„Við erum alveg óendanlega þakklát fyrir þann stuðning sem við höfum fengið en við þurfum að vinna núna frekar með það hvernig við tryggjum að bæði fólkið okkar komist heilt og vel út úr þessu og jafnvel þurfum við mögulega að fá einhvern frekari mannafla en það er verið að skoða það núna,“ segir hún enn fremur.

Verkefnin hafa verið mörg síðustu daga og staðan nokkuð fordæmalaus þar sem rýmingar hafa haft áhrif á mörg hundruð íbúa.

„Við höfum lært heilmikið undanfarna áratugi af þessum flóðum og svoleiðis og í þessu tilfelli þá höfðum við ákveðið ráðrúm og gátum brugðist við, sem var gríðarlega mikilvægt,“ segir Margrét en markmiðið núna er að hlúa að íbúum.

Þjópnustumiðstöð verður opnuð í Neskaupstað eftir helgi þar sem íbúum býðst að leita en íbúar taka misvel á atburðum síðustu daga.

„Það er bara alla vega og við vitum náttúrulega að það eru langtímaáhrif af svona áfalli. Við munum leggjast öll á eitt til að reyna að hlúa eins vel að okkar fólki og hægt er,“ segir Margrét.


Tengdar fréttir

Flóð fallið nokkuð víða og enn frekari rýmingar í Neskaupstað

Ákveðið hefur verið að grípa til enn frekari rýminga í Neskaupstað vegna hættu á ofanflóðum en rýmingar eru þegar í gildi á nokkrum stöðum. Veður virðist vera að ná hámarki en appelsínugular viðvaranir eru í gildi vegna mikillar úrkomu. Flóð hafa verið að falla nokkuð víða í dag að sögn yfirlögregluþjóns á Austurlandi. 

Fjórði garðurinn hefði af­stýrt hörmungunum

Hættuástand er enn í gildi fyrir austan vegna snjóflóða. Ekki er víst að því verði aflétt á næstunni sökum þess hve veðurspáin fyrir svæðið er slæm. Ljóst er að snjóflóðavarnagarðar áttu stóran þátt í því að ekki fór verr þegar stærstu snjóflóðin féllu í gær. 

„Fólkinu líður eðli­lega illa, þetta er mikið á­fall“

Að minnsta kosti þrjú snjóflóð féllu í morgun í Neskaupstað og síðan þá hafa önnur flóð fallið fyrir austan. Fjölmargir viðbragðsaðilar hafa streymt austur og eru til taks ef fleiri flóð verða. Að sögn lögreglustjórans á Austurlandi líður fólki á svæðinu illa.

Fólki mjög brugðið og ýfir upp gömul sár

Íbúum í Neskaupstað er mjög brugðið eftir snjóflóðin í morgun, að sögn íbúa í bænum. Fjöldi fólks hefur komið sér fyrir í fjöldahjálparstöð í Egilsbúð. Flóðin ýfa upp gömul sár eftir mannskæð snjóflóð fyrir fjórum áratugum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×