Körfubolti

Vill að dómarinn sjái sóma sinn í að viður­kenna mis­tök sín

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Magnús Sverrir, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur.
Magnús Sverrir, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur. Stöð 2

Hörður Axel Vilhjálmsson, fyrirliði Keflavíkur, mun taka út leikbann gegn Tindastóli í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppni Subway-deildar karla í körfubolta eftir umdeild atvik. Körfuknattleiksdeild Keflavíkur óskar eftir að dómarar sjái sóma sinn í því að viðurkenna sín mistök.

„Fyrst og fremst gríðarleg vonbrigði. Tala nú ekki um þegar liðið er á leiðinni í undirbúning fyrir úrslitakeppnina sem er framundan. Þar að auki er þetta rangur dómur að okkar mati. Ég myndi vilja sjá í svona tilfellum, þegar menn gera mistök, að dómarinn sjái sóma sinn í að leiðrétta mistökin sem. Í þessu tilfelli, sem er augljóst að um mistök er að ræða, hefði hann átt að gera það. Það er mín skoðun,“ sagði Magnús Sverrir Þorsteinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur.

„Við lögðum að sjálfsögðu inn kæru og útskýrðum okkar mál. Að sama skapi er annar dómari að tala við Hörð Axel, ekki þessi tiltekni dómari. Sem veður síðan inn í atburðarrásina og veit ekkert hvað fer fram. Hann er að taka gríðarlega afdrifaríka og stóra ákvörðun á mikilvægasta tímapunkti tímabilsins.“

Í Tilþrifunum, þar sem farið var yfir leiki síðustu umferðar í Subway-deild karla, kom fram að Hörður Axel og Davíð Tómas dómari eiga sér sögu. Hefur Magnús Sverrir orðið var við það?

„Ekki lýgur Nonni [Jón Halldór Eðvarðsson] en já það er saga á milli þeirra og það er eitthvað sem þarf aðeins að hreinsa eða taka betur á. Það er eitthvað sem ég vissi fyrir löngu síðan og því miður eru örfá atvik að koma upp aftur og aftur þar sem þessi einstaki dómari á í hlut. Það er eitthvað sem þarf að hreinsa upp eða laga. Er mjög óeðlilegt á bakvið þetta allt saman,“ sagði Magnús Sverrir að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×