Íslenski boltinn

Albert um Víking: „Maður á ekki að vanmeta liðið meðan Arnar er við stjórnvölinn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Víkingur tapaði fyrir Breiðabliki í Meistarakeppni KSÍ í gær.
Víkingur tapaði fyrir Breiðabliki í Meistarakeppni KSÍ í gær. vísir/hulda margrét

Albert Ingason hefur áhyggjur fyrir hönd bikarmeistara Víking. Liðinu er spáð 3. sæti Bestu deildar karla í spá íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2 Sports.

„Ég myndi hafa ágætis áhyggjur ef ég væri stuðningsmaður Víkings. Þeir misstu Júlíus Magnússon sem var gríðarlegur skellur fyrir þá. Það gleymist svolítið í umræðunni að stóran hluta síðasta tímabils var Kristall [Máni Ingason] með. Þeir eru svolítið að missa hann inn í þetta tímabil,“ sagði Albert sem er einn sérfræðinga Stöðvar 2 Sports um Bestu deildina.

„Þeir fengu Matthías Vilhjálmsson. Það veit í raun enginn nema Arnar Gunnlaugsson hvernig hann verður notaður í sumar. Þeir misstu Kyle [McLagan] í meiðsli og hann verður ekkert með á þessu tímabili. Það er líka skellur. Ari Sigurpálsson hefur verið frá í allan vetur. Maður hefur í raun áhyggjur af hóp Víkinga. Síðasta tímabil einkenndist mikið af meiðslum, sérstaklega í öftustu línu og manni finnst ekki vera nógu mikil breidd þar. Þeir fengu ungan ÍR-ing í Sveini [Gísla Þorkelssyni] en hann hefur ekki reynslu.“

Þrátt fyrir áhyggjurnar sem Albert hefur af Víkingi telur hann að strákarnir hans Arnars geti barist um Íslandsmeistaratitilinn.

„Mér finnst hópurinn alveg þannig séð nógu góður, sérstaklega ef þeir styrkja varnarlínuna. Ef leikmenn eins og Birnir Snær [Ingason] stíga aðeins meira upp þá klárlega. Arnar hefur sýnt að maður á ekki að vanmeta Víkingsliðið meðan hann er við stjórnvölinn,“ sagði Albert.

Fyrsti leikur Víkings í Bestu deildinni er gegn Stjörnunni mánudaginn 10. apríl.

Þess má geta að viðtalið var tekið áður en Víkingur samdi við færeyska varnarmanninn Gunnar Vatnhamar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×