Framkvæmdastjóri flugfélagsins Niceair er í áfalli eftir að stöðva þurfti alla starfsemi nær fyrirvaralaust í dag. Alls óvíst er um framhaldið; félagið gæti hafa flogið sína síðustu ferð. Við ræðum við framkvæmdastjórann og farþega sem situr í súpunni eftir tíðindi dagsins.
Þá sýnum við frá ávarpi Donalds Trumps fyrrverandi Bandaríkjaforseta í Flórída í gær. Þangað var hann mættur aðeins sjö klukkustundum eftir að hann var leiddur fyrir dómara í New York - og vandaði dómaranum sjálfum ekki kveðjurnar.
Allir sakborningar í stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar voru sakfelldir í héraðsdómi í morgun. Við förum yfir málið og fáum Helga Gunnlaugsson afbrotafræðing í myndver í beina útsendingu.
Þá greinum við frá niðurstöðu í útboði á breikkun Reykjanesbrautar, verðum í beinni frá upphafi fimmfaldrar djammhelgi sem nú fer í hönd og sýnum magnaðar myndir úr fórum kafara, sem allt í einu var staddur í miðri loðnutorfu.