Pilipovic átti frábæran leik fyrir Kadetten í dag og varði 16 af þeim 47 skotum sem hann fékk á sig. Hann var því með rúmlega 34 prósent hlutfallsmarkvörslu, en það sem gerði það líklega að verkum að hann var valinn maður leiksins var sú staðreynd að hann varði hvert dauðafærið á fætur öðru og hjálpaði þannig liði sínu að landa þessum mikilvæga sigri.
Markvörðurinn var þó greinilega ekki sammála því að hann hafi verið besti maður vallarins. Þegar nafn hans var lesið upp og hann beðinn um að koma að taka við verðlaunum kippti hann íslenska landsliðsmanninum Óðni Þór Ríkharðssyni með sér.
Óðinn fór algjörlega á kostum í leiknum og skoraði hvorki fleiri né færri en 15 mörk úr 16 skotum. Pilipovic var í raun svo sannfærður um að hann ætti verðlaunin ekki skilið að hann harðneitaði að taka við þeim úr höndum Óðins. Þessa skemmtilegu uppákomu má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.