Fótbolti

Ó­­­trú­­leg endur­­koma Juventus | Stór­sigur hjá Kristian­stad

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sara Björk og stöllur komu til baka í dag.
Sara Björk og stöllur komu til baka í dag. Twitter@JuventusFCWomen

Sara Björk Gunnarsdóttir lék allan leikinn í ótrúlegum 4-3 endurkomusigri Juventus gegn Fiorentina þar sem gestirnir komust 3-0 yfir áður en Juventus skoraði fjögur mörk. Í Svíþjóð vann Íslendingalið Kristianstad öruggan 4-0 sigur.

Sara Björk var á þriggja manna miðju Juventus sem byrjaði leikinn vægast sagt illa. Þegar 41 mínúta var á klukkunni var staðan orðin 3-0 Fiorentina í vil. Cristiana Girelli minnkaði muninn í blálok fyrri hálfleiks og lagði það grunninn að endurkomu Juventus.

Lineth Beerensteyn minnkaði muninn í 3-2 á 58. mínútu og fimm mínútum síðar var Barbara Bonansea búin að jafna metin. Eftir það kom Alexandra Jóhannsdóttir inn á hjá gestunum en það stöðvaði ekki endurkomu heimakvenna.

Julia Angela Grosso skoraði það sem reyndist sigurmarkið á 82. mínútu og fór það svo að Juventus vann ótrúlegan 4-3 sigur.

Sigurinn þýðir að Juventus á enn möguleika á að ná toppliði Roma en það er ljóst að mikið þarf að gerast. Roma trónir á toppnum með 57 stig að loknum 21 leik á meðan Juventus er með 49 stig í sætinu fyrir neðan.

Í Svíþjóð var Hlín Eiríksdóttir í byrjunarliði Kristianstad sem vann 4-0 sigur á Örebro. Amanda Andradóttir spilaði rúman hálftíma í sigurliðinu. Elísabet Gunnarsdóttir er sem fyrr þjálfari liðsins. Þá spilaði Diljá Ýr Zomers 80 mínútur í 2-2 jafntefli Norrköping og Uppsala.

Norrköping er í 3. sæti deildarinnar með 7 stig að loknum þremur umferðum. Kristianstad er sæti neðar með 6 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×