Málið fjallar í grófum dráttum um fjóra íslenska karlmenn og tilraun þeirra til að smygla gríðarlegu magni af kókaíni til landsins, um hundrað kílóum. Efnin komu frá Brasilíu, voru gerð upptæk í Rotterdam og skipt út fyrir gerviefni. Karlmennirnir voru handteknir hér á landi í ágúst í fyrra.
Páll Jónsson, timburinnflytjandi á sjötugsaldri, hlaut tíu ára fangelsisdómm, Birgir Halldórsson, 27 ára karlmaður, átta ára fangelsi, Jóhannes Páll Durr 28 ára hlaut sex ára fangelsisdóm og Daði Björnsson, þrítugur karlmaður, hlaut sex og hálfs árs fangelsisdóm.
Unnsteinn Elvarsson, verjandi Páls, staðfestir við fréttastofu að dómi Páls verði áfrýjað til Landsréttar. Eftir því sem fréttastofa kemst næst hafa verjendur hinna þriggja enn til skoðunar hvort dómnum verði áfrýjað.
Sakborningar hafa fjórar vikur frá birtingu dóms til að áfrýja til Landsréttar.