Fótbolti

Hareide um Gylfa: „Þetta hljóta að hafa verið tvö ár í helvíti fyrir hann“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Åge Hareide vonast til að Gylfi Þór Sigurðsson snúi aftur á fótboltavöllinn.
Åge Hareide vonast til að Gylfi Þór Sigurðsson snúi aftur á fótboltavöllinn. vísir/hulda margrét

Åge Hareide, nýráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, segir að hann muni horfa til Gylfa Þórs Sigurðssonar ef hann heldur áfram í fótbolta.

Allar ákærur á hendur Gylfa vegna meintra kynferðisbrota gegn ólögráða einstaklingi hafa verið felldar niður. Hann er því ekki lengur í farbanni og getur haldið fótboltaferli sínum áfram ef hann kýs svo. Gylfi hefur ekki spilað fótbolta frá vorinu 2021 og ekki spilað með íslenska landsliðinu síðan í nóvember 2020.

Hareide var spurður út í Gylfa og stöðu hans á sínum fyrsta blaðamannafundi sem þjálfari íslenska landsliðsins í dag. 

„Það er gott fyrir hann að málinu sé lokið. Ég fann virkilega til með honum. Ég hef hitt hann. Hann er fínn gaur og frábær leikmaður en hann hefur ekki spilað í tvö ár þannig ég get ekki talað mikið meira um hann,“ sagði Hareide.

Klippa: Blaðamannafundur Åges Hareide

„Hann sjálfur verður að ákveða hvort hann vill spila aftur. Ef hann gerir það verður hann augljóslega í mínum áætlunum. Ef hann heldur sama standard og áður. En ég er mjög ánægður því að hann sé laus allra mála því þetta hljóta að hafa verið tvö ár í helvíti fyrir hann.“

Gylfi hefur leikið 78 landsleiki og skorað 25 mörk. Hann er þriðji markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×