Valsmenn mættu særðir til leiks í einvígið gegn Haukum með lykilmenn fjarverandi vegna meiðsla en eitt og sér var ekki ástæðan fyrir því að liðið skoraði aðeins fjögur mörk í fyrri hálfleiknum í leiknum gegn Haukum.
„Höfum það alveg á hreinu að frammistaða Vals var til skammar og Snorri Steinn viðurkenndi það og sagði það bara réttilega,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, umsjónarmaður Handkastins. „Ástæðan fyrir því að ég talaði um að Valur ætti ekki séns í Haukana í þessum leik var ekki vegna meiðsla Benedikts, Magnúsar eða Róberts.
Heldur út frá þeirri staðreynd hvernig Valur hefur verið að spila undanfarna tvo mánuði. Frammistaða liðsins er bara búin að vera til skammar síðustu vikur. Þeir hafa tapað átta leikjum í röð, sex af þessum leikjum hafa verið búnir í hálfleik.“
Ekki bara eitthvað sem þú opnar í Coco-puffs pakka
Arnar Daði varpaði þá fram spurningum varðandi það hvernig spilað hefur verið á Valsliðinu á yfirstandandi tímabili en nóg hefur verið að gera hjá liðinu, bæði hér heima fyrir sem og í Evrópukeppni. Leikmenn á borð við Aron Dag Pálsson sitji á bekknum meira og minna fyrstu umferðir tímabilsins.
„Agnar Smári er brjálaður og spilar lítið sem ekkert í upphafi tímabils, hann kemur ekki inn á í fyrstu Evrópuleikjunum. Tryggvi Garðar spilar ekki mínútu fram í miðjan nóvember og þá vegna þess að hann er tilneyddur vegna meiðsla annarra leikmanna. Þá hefur Sakai Motoki varla spilað.

Þarna sé búið að telja til þó nokkuð marga leikmenn.
„Vignir Stefánsson spilaði lítið sem ekkert, Benedikt Gunnar Óskarsson bara spilaði og spilaði. Hann er bara lítill og léttur, gat alveg spilað en er það þjálffræðilega rétt að láta Benedikt spila svona ótrúlega mikið?“ bætti Arnar Daði við.
Nú spyrji menn sig að því hvernig Valur, vitandi það í júlí að fram undan væru tíu Evrópuleikir og um er að ræða stórt félag innan handboltans á Íslandi, hvernig styrktarþjálfun liðsins sé háttað.
„Þeir eru ekki einu sinni með styrktarþjálfara,“ sagði Arnar Daði í Handkastinu. „Leikmenn Vals hoppuðu yfir götuna og fóru í afrek, sem er einhver Crossfit stöð. Hvernig er endurhæfingu eftir leiki háttað hjá liðinu? Hvernig eru styrktaræfingar leikmanna á miðju tímabili? Þetta er ekki bara eitthvað sem þú opnar í Coco-puffs pakka og gerir bara einhvern vegin. Þetta er bara jafn mikilvægt og það hvernig þú stillir upp vörn, hvernig þú spilar sókn og hvernig þú rúllar liðinu.
Það er með ólíkindum að félag eins og Valur, sem státar sig af því að hafa unnið einhverja sjö titla í röð og að vera með landsliðsmenn innan sinna raða, bjóði ekki upp á betra umhverfi. Af hverju eru leikmenn á leiðinni í Val þegar að umhverfið er ekki betra en þetta?“
Umræðan um Val hefst á 29. mínútu þáttarins en hana sem og þátt Handkastsins í heild sinni má hlusta á hér fyrir neðan: