Viðskipti erlent

Kaupa flugvél til að flytja ferskan eldislax á markað

Kristján Már Unnarsson skrifar
Flugvél FarCargo er af gerðinni Boeing 757-200.
Flugvél FarCargo er af gerðinni Boeing 757-200. Sosialurin/FarCargo

Færeyski fiskeldisrisinn Bakkafrost, í gegnum dótturfélag sitt FarCargo, mun í sumar hefja beint flug frá Færeyjum með ferskan eldislax á erlenda markaði. Til flugsins verður notuð fraktflugvél sem sérstaklega var keypt fyrir verkefnið.

Bakkafrost, sem er langstærsta fyrirtæki Færeyja, tilkynnti í fyrrasumar að nýstofnað dótturfélag, FarCargo, hefði fest kaup á Boeing 757-200, 47 metra langri þotu með 7.000 kílómetra flugdrægi sem gæti borið allt að 35 tonna farm. Þotunni væri einkum ætlað að fljúga milli Vogaflugvallar í Færeyjum og New York-borgar.

Fram kom að FarCargo hefði verið í samstarfi við sænska fyrirtækið West Atlantic til að sjá um öll flugleyfi. FarCargo væri síðan ætlað að taka við flugrekstrinum eftir nokkur ár. Í fyrstu yrðu tíu flugliðar og aðrir starfsmenn fastráðnir hjá félaginu.

Teikningin sýnir hvernig flugvélin mun líta út í litum FarCargo.Sosialurin/FarCargo

Í frétt færeyska blaðsins Sosialurin fyrir helgi kom fram að samið hefði verið við bandaríska fyrirtækið AerSale um kaup á Boeing-þotunni, sem er af árgerð 2001. Miðað væri við að hún yrði afhent um mánaðamótin júní-júlí. Hún yrði meðal annars útbúin með RNP-flugleiðsögukerfi, sem gerði henni kleift að gera aðflug og lenda í dimmri þoku, eins og algeng er í Vogum.

„Þetta er nýr kafli í færeyskri viðskiptasögu,“ sagði Regin Jacobsen, forstjóri Bakkafrosts, í fréttatilkynningu félagsins í fyrra.

Forystumenn Bakkafrosts og FarCargo ásamt flugliðum. Regin Jacobsen, forstjóri Bakkafrosts og stjórnarformaður FarCargo, lengst til vinstri. Birgir Nielsen, forstjóri FarCargo, lengst til hægri. Milli þeirra er flugmennirnir Meinhard á Høgabóli, Heðin Krett, Rúni Højgaard, Atli Tróndheim og Johan Vágadal.Sosialurin/FarCargo

„Stefnt er að því að afhenda ferskan hágæða lax bæði í Bandaríkjunum, Ísrael og öðrum fjarlægum mörkuðum aðeins degi eftir að fiskurinn syndir í færeyskum fjörðum.

Við teljum að þetta muni styrkja samkeppnishæfni okkar verulega. Viðskiptavinir, bæði í Ísrael og á bandaríska sushimarkaðnum, krefjast ferskra vara og með þessari miklu styttri leið munum við útvega viðskiptavinum okkar ferskustu vöruna á markaðnum,“ sagði Regin.

Fraktrýmið í þotunni. Hún getur borið allt að 35 tonn.Sosialurin/FarCargo

Flugvélin verður þó ekki eingöngu nýtt til laxflutninga. FarCargo hyggst bjóða bæði færeyskum og alþjóðlegum fyrirtækjum að kaupa farmrými. Þannig muni til dæmis innflutningsfyrirtæki geta nýtt flugvélina til að fljúga með vörur erlendis frá til Færeyja.

Í þessari frétt lýsti talsmaður laxeldisfyrirtækis á Austfjörðum yfir áhuga á fraktflugi með lax frá Egilsstöðum:

Forseti Íslands kynnti sér starfsemi Bakkafrosts í heimsókn til Færeyja fyrir sex árum: 

Boeing 757-þotur hafa einnig verið burðarásinn í flugi Icelandair Cargo með ferskan íslenskan fisk á erlenda markaði, sem fjallað var um í þættinum Um land allt árið 2014:


Tengdar fréttir

Vill fiskflutninga með flugi frá Egilsstöðum

Forstjóri stærsta laxeldisfyrirtækis Austfjarða segir kjörin tækifæri til fiskflutninga með flugi beint frá Egilsstaðaflugvelli og hvetur til þess að nauðsynleg aðstaða til afgreiðslu fraktflugs verði byggð upp á flugvellinum.

Færeyingar eignast stóran hluta af laxeldi Skotlands

Færeyska fyrirtækið Bakkafrost hefur eignast 78 prósenta hlut í næst stærsta fiskeldisfyrirtæki Skotlands. Skoska fyrirtækið er með eldiskvíar á um 60 stöðum í Skotlandi og með yfir 600 starfsmenn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×