Fótbolti

Opnar fyrir það að Meistara­deildar­leikir verði spilaðir í Banda­ríkjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aleksander Ceferin, forseti UEFA, með Meistaradeildarbikarinn.
Aleksander Ceferin, forseti UEFA, með Meistaradeildarbikarinn. Getty/Matthias Hangst

Aleksander Ceferin, forseti Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, afskrifar alls ekki að spila stórleiki í Meistaradeildinni í fótbolta hinum megin við Atlantshafið.

Ceferin ræddi þennan möguleika í viðtali hjá Roger Bennett í vinsæla bandaríska fótboltaþættinum „Men in Blazers“ en Meistaradeildin er alltaf að auka vinsældir sínar í Bandaríkjunum.

„Það er möguleiki á að Meistaradeildin verði spiluð í Bandaríkjunum. Við höfum hafið viðræður. Í ár fer úrslitaleikurinn fram í Istanbul, 2024 verður hann í London og árið 2025 fer hann fram í München. Eftir það getum við skoðað það. Sjáum til. Það er möguleiki,“ sagði Aleksander Ceferin.

Það liggur í augum uppi að þessi leikur verður væntanlega úrslitaleikur keppninnar sem er sá eini sem er spilaður á hlutlausum velli.

Það var fyrst árið 2016 sem Ceferin fór að tala um hugmynd sína að spila Evrópuleiki í Bandaríkjunum.

Gab Marcotti hjá ESPN segir að þetta hafi verið rætt á síðasta fundi framkvæmdanefndar UEFA sem fram fór í Króatíu en eins og fundi knattspyrnusambanda Evrópu í Istanbul. Ceferin hefur ávallt neitað að slíkar umræður hafi farið fram en nú virðist það vera breytt.

Ceferin ræddi líka fjárhafslegan ávinning af þessu í viðtalinu við Bennett.

„Fótbolti er gríðarlega vinsæll í Bandaríkjunum þessa dagana. Ameríkanar eru tilbúnir að borga mikið fyrir það besta og ekkert fyrir það sem fyrir neðan það. Þeir fylgjast því með evrópska fótboltanum eins og körfuboltaáhugafólk fylgist með NBA-deildinni í Bandaríkjunum,“ sagði Ceferin.

„Þetta er mjög mikilvægur markaður fyrir okkur í framtíðinni. Við erum líka að selja sjónvarpsréttinn þangað. Styrktaraðilar frá Bandaríkjunum er svona lala í dag en hér í Bandaríkjunum þá markaðssetningin allt önnur en í Evrópu. Á því sviði eru Ameríkanar miklu hæfileikaríkari en við Evrópubúarnir,“ sagði Ceferin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×