Gert er ráð fyrir því að flýtimóttakan verði samstarfsverkefni milli SÁÁ, Landspítalans og heilsugæslunnar en ekkert er gefið upp um hvenær stendur til að opna, hvar þetta verður eða hver eigi að sjá um þetta.
Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri Vogs og framkvæmdastjóri lækninga, ræddi málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi og hún tekur vel í hugmyndina.
„Það er verk að vinna þarna og við erum tilbúin í samstarf. Við höfum haft hugmynd um eitthvað svona verkefni í huganum og rætt það áður þannig að það er mjög mikið hægt að gera,“ segir hún.
Valgerður segir þó að hugmyndin og tilkynning um hana hafi ekki verið unnin í samráði við SÁÁ og Vog. Hún sé þó mjög ánægð með hana og voni að nefndin samþykki hana í komandi viku.
Hvar sérð þú fyrir þer að svona starfsemi gæti farið fram?
„Við höfum hugsað um hvernig við gætum komið að svona viðbragðsþjónustu, sem þarf að vera, og það er í samvinnu, eins og til dæmis við bráðamóttöku Landspítalans, geðdeild Landspítalans, heilsugæslustöðvar og eitthvað sem við gætum sinnt á göngudeildinni á Vogi. Metið fólk með tilliti til hvað þarf að gerast brátt. Það er oft þörf á því. Vonandi getum við útfært þetta en ég er mest ánægð að sjá tillögu um að ríkið ætli í raun og veru að borga fyrir lyfjameðferðina sem við höfum veitt fram að þessu, og að miklu leyti á kostnað SÁÁ. Þessar tillögur benda til þess að þeir ætli að greiða fyrir meðferðina sem er veitt nú þegar. Þessar áttatíu milljónir, gatið sem er nú þegar. Það er mjög ánægjulegt, ég vona að þetta fái fylgi hjá ríkisstjórninni.“
Er þetta nóg?
„Það eru ýmiss önnur verkefni inni í þessu heyrist mér og þetta er örugglega ekki nóg en þetta er rosalega góð byrjun og gott framlag frá ráðherra,“ segir Valgerður að lokum.