Erlent

Freyja gerð ó­dauð­leg með styttu í Osló

Bjarki Sigurðsson skrifar
Freyja mun nú dvelja alla tíð á hafnarbakkanum.
Freyja mun nú dvelja alla tíð á hafnarbakkanum. EPA/Annika Byrde

Reist hefur verið stytta af vandræðarostungnum Freyju í Osló, höfuðborg Noregs. Freyja var aflífuð í ágúst á síðasta ári vegna ágengni almennings og ferðamanna þar sem hún dvaldi á smábátabryggju nærri Osló.

Rostungurinn Freyja var vinsælasti rostungur heims um tíma þegar hún stundaði það að spóka sig á hafnarbökkum víðs vegar um Noreg. Átti hún það til að reyna að leggja sig í bátum, sem hún endaði á því að sökkva vegna þunga síns, og var það athæfi ekki jafn vinsælt. 

Hún varð heimsfræg og ferðuðust margir til hafna þar sem hún lá og tóku mynd af sér með henni. Fiskistofa Noregs hafði þó varað fólk við því að nálgast hana of mikið þar sem talið var að ef hún teldi sér ógnað gæti hún brugðist illa við.

Klippa: Rostungurinn Freyja veldur usla

Fólk átti þó erfitt með að hemja sig og fékk Freyja að finna fyrir því. Fiskistofa ákvað að það þyrfti að aflífa hana vegna ágengni sem skapaði hættuástand. 

Nú hefur verið reist bronsskúlptúr af Freyju á hafnarbakka í Osló. Styttan var gerð af listamanninum Astri Tonoian, sem nefndi hana „For Our Sins“ eða „Vegna synda okkar“ og er þar að meina að Freyja hafi verið drepin vegna synda okkar mannfólksins. 

„Svona kemur mannkynið fram við náttúruna, en það er líka svona sem menn koma fram við aðra menn. Það var svona sem við komum fram við Freyju,“ hefur BBC eftir Tonoian. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×