Körfubolti

Vonsvikinn Hannes ætlar í stjórn ÍSÍ

Sindri Sverrisson skrifar
Hannes S. Jónsson hefur ítrekað gagnrýnt ÍSÍ í gegnum tíðina og sækist nú eftir sæti í framkvæmdastjórn sambandsins.
Hannes S. Jónsson hefur ítrekað gagnrýnt ÍSÍ í gegnum tíðina og sækist nú eftir sæti í framkvæmdastjórn sambandsins. Vísir

Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri Körfuknattleikssambands Íslands, er á meðal þeirra níu frambjóðenda sem sækjast eftir sæti í framkvæmdastjórn Íþrótta- og ólympíusambands Íslands um helgina. Kosið verður á Íþróttaþingi ÍSÍ á Ásvöllum.

Hannes hefur gagnrýnt ÍSÍ ítrekað í gegnum tíðina, þá sem formaður KKÍ, og þá sérstaklega vegna úthlutunar úr afrekssjóði ÍSÍ til sérsambanda.

Steininn virtist taka úr í vetur þegar KKÍ var fært niður um flokk á lista afrekssjóðs, með tilheyrandi tekjumissi og þar með færri verkefnum fyrir íslensku körfuboltalandsliðin sem verða ekki með á Smáþjóðaleikunum í lok þessa mánaðar. 

Hannes hefur ítrekað lýst yfir miklum vonbrigðum yfir þessu og sagt úthlutun ÍSÍ móðgun við íslenskan körfubolta.

Nú gæti Hannes verið á leið í framkvæmdastjórn ÍSÍ til að vinna þar með forseta ÍSÍ, Lárusi Blöndal, sem var á síðasta Íþróttaþingi kjörinn til fjögurra ára.

Alls níu frambjóðendur keppast um sjö laus sæti í framkvæmdastjórninni um helgina. Þar sitja fjórtán manns hverju sinni og er kosið í sjö embætti meðstjórnenda, til fjögurra ára, á tveggja ára fresti.

Til að framboð teljist löglegt þarf eitt sérsamband og eitt héraðssamband eða íþróttabandalag að hafa lýst yfir stuðningi við framboðið, en stjórnarmenn ÍSÍ eru hins vegar ekki fulltrúar þeirra sambanda heldur óháðir.

Frambjóðendurnir eru eftirtaldir:

  • Daníel Jakobsson (SKÍ/HSV)
  • Elsa Nielsen (BSÍ/UMSK)
  • Hafsteinn Pálsson (KSÍ/UMSK)
  • Hannes S. Jónsson (KKÍ/UMSK)
  • Hjördís Guðmundsdóttir (KSÍ/ÍBR)
  • Hörður Oddfríðarson (SSÍ/ÍBR)
  • Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir (KSÍ/ÍBR)
  • Olga Bjarnadóttir (FSÍ/HSK)
  • Ragnheiður Ríkharðsdóttir (GSÍ/ÍA)

Hafsteinn, Kolbrún Hrund og Olga eiga öll sæti í núverandi framkvæmdastjórn en þaðan víkja Gunnar Bragason, Ingi Þór Ágústsson og Knútur G. Hauksson. Ása Ólafsdóttir sagði sig úr stjórn á miðju kjörtímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×