Handbolti

Endaði til­finninga­lega tómur og ætlar sér að skemma partýið

Aron Guðmundsson skrifar
Sverrir Eyjólfsson, þjálfari karlaliðs Fjölnis í handbolta
Sverrir Eyjólfsson, þjálfari karlaliðs Fjölnis í handbolta Mynd: Fjölnir

Sverrir Eyjólfs­son, þjálfari karla­liðs Fjölnis í hand­bolta, segist hafa verið til­finninga­lega tómur eftir síðasta leik liðsins í hörðu ein­vígi gegn Víkingi Reykja­vík á dögunum. Fram undan er stærsti leikurinn á hans þjálfara­ferli til þessa.

Sverrir er á sínu fyrsta ári sem þjálfari í meistara­flokki í hand­bolta. Undir stjórn hans eru Fjölnis­menn komnir alla leið í odda­leik gegn Víkingi Reykja­vík í um­spili um laust sæti í Olís deild karla á næsta tíma­bili

Odda­leikur liðanna fer fram í Safa­mýri klukkan 14:00 í dag en leikir liðanna í um­spilinu hafa reynst mikil skemmtun.

„Stemningin er bara góð, við erum spenntir og tökum öllum leikjum sem við fáum með glöðu geði. Við erum bara spenntir fyrir þessu,“ segir Sverrir í við­tali sem Arnar Daði Arnars­son tók við hann í hlaðvarpsþættinum Hand­kastið.

Ætla sér að skemma partýið

Fjölnir lenti 2-0 undir í ein­víginu gegn Víkingum en Grafar­vog­s­piltarnir neituðu að játa sig sigraða og hafa nú unnið síðustu tvo leiki og knúið fram odda­leik.

Hvernig finnst þér strákarnir hafa brugðist við því mót­læti að hafa lent 2-0 undir?

„Fyrsti leikurinn var mikið kjafts­högg, við eigin­lega stein­liggjum þar. Síðan þá hefur þetta verið vaxandi hjá okkur. Ég geri ráð fyrir því að odda­leikurinn verði með svipuðu móti. Þetta verður jafn en sveiflu­kenndur leikur. Planið hjá okkur er að skemma partý hjá Víkingunum en það er erfitt.

Þetta Víkings­lið er mjög reynslu­mikið, eitt­hvað sem okkur vantar akkúrat núna á þessari stundu. Slæmu kaflarnir okkar hafa verið langir, það er okkar helsta vanda­mál.“

Leitar ráða hjá brósa

Sverrir er á sínu fyrsta ári sem þjálfari í meistara­flokki. Hann er bróðir Aðal­steins Eyjólfs­sonar, þjálfara Kadet­ten í Sviss og viður­kennir að hafa heyrt í honum og leitað ráða.

„Ég er í góðum sam­skiptum við Alla og hann gefur mér góð ráð. Þegar að maður stendur þarna sem þjálfari á hliðar­línunni í leikjum, þá finnur maður sig svo­lítið einn. Ég er búinn að gera fullt af mis­tökum og er sjálfur að stíga mín fyrstu skref, reka mig á og læra af því.“

Aðalsteinn Eyjólfsson, bróðir Eyjólfs, er þjálfari Kadetten í SvissKadetten

Síðasti leikur ein­vígisins gegn Víkingum, leikurinn sem knúði fram odda­leik, var tví­fram­lengdur og fór alla leið í víta­keppni og enn fremur alla leið í bráða­bana.

Hvernig var sú upp­lifun?

„Til­finningin var æðis­leg eftir þann leik. Maður fann fyrir miklum létti hjá mönnum en það sem var skemmti­legast fyrir mig í þessu, það sem ég var stoltastur yfir, var bar­áttan hjá okkur. Við vorum komnir lang­leiðina með að tapa þessum leik í ein­hver fjögur skipti.

Strákarnir mínir börðust á­fram, það hefur verið vanda­mál hjá okkur í vetur hvað við vorum brot­hættir en bar­áttan er klár­lega styrk­leika- og þroska­merki við leik okkar.

Ég get alveg viður­kennt að eftir leik, þegar að maður settist loks niður, þá var maður tómur til­finninga­lega. Þetta var hörku leikur og rosa­legur rússí­bani.“

Við­talið við Sverri Eyjólfs­son í Hand­kastinu sem og þáttinn í heild sinni má hlusta á hér fyrir ofan:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×