„Það var fullt af allskonar dóti stolið úr skúrnum, eins og rándýr GPS búnaður en það eina sem skiptir mig máli að finna aftur er þessi tölva,“ segir Ívar Pétur Hannesson, fjölskyldufaðir á Völlunum í Hafnarfirði. Sonur hans Sigurgeir Bjarni Ívarsson er með sjaldgæfan erfðasjúkdóm og einhverfur og þarfnast tölvunnar mjög.
Löng bið eftir nýrri
„Þessi spjaldtölva er röddin hans og er hann að læra á hana í skólanum,“ skrifar Ívar í færslu á samfélagsmiðlinum Facebook þar sem hann lýsir eftir tölvunni. Hann segir að sérpanta þyrfti nýja tölvu og fjölskyldan bindi því miklar vonir við að þessi finnist.
„Við vorum í marga mánuði að fá þessa tölvu upphaflega, ætli þetta hafi ekki verið einhverjir átta eða tíu mánuðir og yrði líklega svipað núna.“
Tölvan var í skólatösku sonar hans og var taskan auk ýmis annars búnað tekinn úr skúrnum í nótt. „Tölvan lítur í raun út eins og venjuleg spjaldtölva nema að það er fastur hátalari neðst á henni og handfang að ofan,“ segir Ívar.

Engir eftirmálar ef henni verður skilað
Tölvan er frá framleiðandanum Topii og er í svartri tautösku. Ívar segist engar ábendingar hafa fengið vegna málsins enn sem komið er en segir lögreglu auk þess kanna málið.
„Ég væri alveg til í að fá hana til baka og ef einhver getur gefið mér upplýsingar um hana skal ég borga góð fundarlaun fyrir. Sömuleiðis ef viðkomandi skilar henni sjálfur verða engir eftirmálar.“
