Auglýsingar BSRB líta út eins og um starfsauglýsingar sveitarfélaganna sé um að ræða. Virðist Kópavogsbær meðal annars óska eftir starfskrafti og býður óþægilega stemningu á vinnustað sem fríðindi. Seltjarnarnesbær býður lægri laun og skýra mismunun í auglýsingu BSRB á meðan Garðabær virðist óska eftir meðvirkum starfskrafti.
Herferðin nær til auglýsingaskilta, samfélagsmiðla og útvarps. „Markmiðið með herferðinni er að upplýsa íbúa sveitarfélaganna sem eru að mismuna starfsfólki sínu um stöðuna,“ segir Freyja Steingrímsdóttir, samskiptastjóri BSRB.
„Það er mikilvægt að almenningur skynji óréttlætið sem felst í því þegar starfsfólki í sömu störfum, á sömu vinnustöðum, séu ekki greidd sömu laun - og það hjálpi okkur í BSRB að þrýsta á bæjar- og sveitarstjórnir að láta af þessari óbilgirni.“

Segist skynja stuðning við baráttuna
Aðspurð segist Freyja skynja stuðning meðal almennings við baráttu og verkfallsaðgerðir, meðal annars hjá þeim sem aðgerðirnar bitni á. Aðgerðir BSRB munu ná til tíu sveitarfélaga ef af verður.
„Meira að segja fólk sem aðgerðirnar bitna á eins og foreldra leik- og grunnskólabarna er skilningsríkt og vill ekki að fóllkinu sem sinnir börnum þeirra sé mismunað svona.“
Verkföll hefjast að óbreyttu hjá starfsfólki BSRB á leikskólum og grunnskólum þann 15. maí næstkomandi. Fara starfsmenn leikskóla í Kópavogi, Garðabæ og Mosfellsbæ í verkfall ef af verður auk starfsfólks í grunnskólum Kópavogs, Seltjarnarness og Mosfellsbæjar.