Dagur settist niður í setti Seinni bylgjunnar, með magnaða stuðningsmenn ÍBV fyrir framan sig en þeir héldu áfram að syngja löngu eftir að leiknum lauk, með 31-29 sigri ÍBV í framlengdum leik.
„Það eru forréttindi að spila fyrir framan þetta lið,“ sagði Dagur og fullyrti að stuðningsmennirnir ættu stóran þátt í því að Eyjamenn væru svona góðir þegar mest væri undir.
Dagur benti raunar á að sambandið á milli leikmanna og stuðningsmanna væri svo sterkt að þeir legðu saman á ráðin fyrir leiki, og sáu leikmenn um að borga fyrir kokkahúfurnar sem stuðningsmenn voru með í gær á meðan að leikmenn ÍBV „hægelduðu“ Hafnfirðinga.
„Þetta eru peyjar sem eru að æfa með okkur margir hverjir, góðir vinir okkar, og við búum í þannig samfélagi að allir þekkja alla. Við erum alveg að plana með þeim. Ég get sagt ykkur það að leikmannasjóðurinn borgaði fyrir þessar kokkahúfur,“ sagði Dagur í viðtalinu sem sjá má hér að neðan.
Dagur tók undir að einvígið við FH hefði verið spennandi þrátt fyrir að það færi 3-0.
„Það fara tveir leikir í framlengingu. Það segir það sem segja þarf. Og að við höfum komist áfram segir líka hvað við erum ógeðslega góðir. Þetta FH-lið er drullugott.“
„Allir að bíða eftir að Rúnar hoppi upp og þá er ég búinn að skjóta“
Þá varpaði Dagur ljósi á skemmtilegt mark sem hann skoraði upp úr aukakasti, þegar hann kom ÍBV í 19-18 í seinni hálfleiknum. Dagur sást þá hvísla einhverju að Kára Kristjáni Kristjánssyni, áður en stillt var upp fyrir Rúnar Kárason en með því göbbuðu Eyjamenn FH-inga. Markið má sjá hér að ofan.
„Það bjuggust allir við að Rúnar væri að fara að skjóta. Kári læðir þá boltanum yfir á mig, ég kem svona fyrir framan, þeir eru allir að bíða eftir að Rúnar hoppi upp og þá er ég búinn að skjóta. Þetta er eitthvað sem við höfum æft og er helvíti gott að geta gripið í á svona mikilvægu augnabliki.“
Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 4.990 krónur á mánuði.