Valur tekur á móti Tindastól í leik þrjú í úrslitaeinvíginu. Staðan er 1-1 eftir tvo hörkuleiki og ljóst er að færri komast að en vilja. Pétur Rúnar hefur verið frábær í einvíginu og tók Vísir púlsinn á honum fyrir stórleik kvöldsins.
„Þetta er gjörsamlega geggjað. Heima, ég er að mæta einum og hálfum tíma fyrir leik en þá er fólk þegar mætt að syngja. Það er eiginlega ólýsanlegt hvað þetta er gaman. Svo í Origo-höllinni er röð langt út á götu. Þetta er ólýsanleg tilfinning og mikil forréttindi að fá að taka þátt í þessu,“ sagði Pétur Rúnar um stemninguna í úrslitaeinvíginu.
Hann býst við svipaðri stemningu í kvöld og hrósaði stuðningsfólki Tindastóls í hástert.
„Eru búin að vera gjörsamlega geggjuð. Ég býst við engu öðru í kvöld en þau haldi því áfram. Syngi, tralli og hafi gaman, og Valsarar líka.“
Hvað má betur fara
„Helst hvað við vorum langt frá þeim eiginlega allan tímann. Þurfum að vera töluvert betri varnarlega og ekki leyfa þeim að hafa þetta svona þægilegt eins og þeir höfðu það lungann úr leik tvö,“ sagði Pétur Rúnar aðspurður hvað mætti betur fara.
„Við vorum betri í leik eitt, þeir voru betri í leik tvö. Við viljum gera svipaða hluti og í leik eitt aftur og þeir svipaða hluti og í leik tvö. Þetta verður fróðlegur leikur og spennandi að sjá hverjir verða yfir.“
Liðin eingöngu unnið á útivelli
Valur og Tindastóll hafa mæst tvívegis í deildarkeppni og nú tvisvar í úrslitakeppni. Bæði lið hafa unnið tvo leiki og það sem meira er, bæði lið hafa unnið sína sigra á útivelli.
„Við ætlum okkur að reyna halda því munstri á lofti. Erum klárir í hörkuleik í kvöld.“
Leikur kvöldsins hefst kl. 19.15 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun hefst 18.30 og Körfuboltakvöld er á sínum stað að leik loknum.