Fótbolti

Guðlaugur Victor og félagar björguðu stigi á heimavelli

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson lék allan leikinn í jafntefli DC United í nótt.
Guðlaugur Victor Pálsson lék allan leikinn í jafntefli DC United í nótt. Jeff Dean/Getty Images

Guðlaugur Victor Pálsson og félagar hans í DC United sluppu með skrekkinn er liðið tók á móti Nashville SC í bandarísku MLS-deildinni í fótbolta í nótt. Lokatölur 1-1 í leik þar sem heimamenn jöfnuðu á seinustu stundu.

Guðlaugur Victor var á sínum stað í byrjunarliði DC United og lék allan leikinn í hjarta varnarinnar í leik næturinnar.

Það voru hins vegar gestirnir sem voru fyrri til að brjóta ísinn þegar Alex Muyl kom boltanum í netið á 73. mínútu, en Theodore Ku-DiPietro reyndist hetja DC United þegar hann jafnaði metin sjö mínútum fyrir leiksloka.

Lokatölur 1-1 og DC United situr nú í níunda sæti Austurdeildarinnar með 15 stig eftir 12 leiki, fjórum stigum á eftir Nashville sem situr í þriðja sæti.

Þá sat Þorleifur Úlfarsson allan tíman á varamannabekk Houston Dynamo er liðið tók á móti Seattle Sounders. Heimamenn í Houston nældu sér í tvö rauð spjöld í leiknum og máttu að lokum þola 1-0 tap.

Að lokum var Róbert Orri Þorkelsson í fyrsta sinn í byrjunarliði Montreal er liðið vann 2-0 sigur gegn Toronto og Dagur Dan Þórhallsson kom inn af varamannabekk Orlando City á 75. mínútu er liðið gerði 2-2 jafntefli við Columbus Crew.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×