Þetta hefur CNN eftir þremur embættismönnum í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna en sérfræðingar skoðuðu loftvarnarkerfið í gær.
Á aðfaranótt gærdagsins gerðu Rússar umfangsmiklar árásir á Kænugarð sem virðist hafa verið ætlað, í það minnsta að hluta til, að granda loftvarnarkerfinu. Patriot-kerfið er sagt eitt það háþróaðasta í heiminum.
Sjá einnig: Senda besta loftvarnarkerfið til Úkraínu
Meðal annars var sex ofurhljóðfráum eldflaugum af gerðinni Kinzhal, sem þýðir rýtingur, skotið að Kænugarði en Úkraínumenn segjast hafa skotið þær allar niður yfir borginni en hættuástand skapaðist á jörðu niðri þegar brak úr eldflaugunum, og öðrum sem skotið var, féll til jarðar.
Sjá einnig: „Ógnvekjandi að finna sprengjuhvellina fara í gegnum mann“
Patriot-kerfið er samansett úr sex hlutum. Rafstöðvum, ratsjá, stjórnstöð, loftnetum, skotpöllum og flugskeytum. Hægt er að staðsetja þessa mismunandi hluta kerfisins í nokkurri fjarlægð frá hvorum öðrum. Úkraínumenn hafa fengið eitt kerfi frá Bandaríkjamönnum, sem virðist vera í Kænugarði, og annað frá Þjóðverjum og Hollendingum.
Sjá einnig: Kanna hvort Rússum hafi tekist að skemma loftvarnarkerfi
Ekki liggur fyrir hvaða hlutar kerfisins urðu fyrir skemmdum eða hvort skemmdirnar séu til komnar vegna braks eða hvort að eldflaug hafi hæft kerfið.
Bandaríkjamenn segja Rússa einnig hafa skotið ofurhljóðfrárri eldflaug að Patriot-kerfinu þann 4. maí. Sú eldflaug var skotin niður en það var í fyrsta sinn sem slíkri eldflaug var grandað í lofti. Rússar hafa stærst sig af því að nánast ógerlegt sé að granda þessum eldflaugum.
New: Damage to a Patriot air defense system following a Russian missile attack near Kyiv is minimal, three US officials tell CNN. US sent inspectors to examine the system on Tuesday
— Jim Sciutto (@jimsciutto) May 17, 2023
- and system itself remains functional, the officials said. W/my colleague @NatashaBertrand
Kalla eftir sendingum F-16 til Úkraínu
Úkraínumenn hafa kallað eftir því að fá einnig F-16 herþotur til að bæta loftvarnir sínar gegn eldflauga- og drónaárásum Rússa. Yfirvöld Í Bretlandi og Hollandi tóku undir þau áköll í gær og lögðu til að Vesturlönd útveguðu Úkraínumönnum F-16.
F-16 eru í notkun víða og í miklu magni en mörg ríki sem hafa notað þær eru að skipta þeim út fyrir F-35 þotur frá Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn þyrftu að samþykkja flutning F-16 til Úkraínu, þar sem þær eru framleiddar þar í landi, eins og Þjóðverjar þurftu að gera þegar kom að sendingum Leopard skriðdreka til Úkraínu.
Í frétt New York Times segir að ráðamenn í Bandaríkjunum séu enn þeirrar skoðunar að ekki skuli senda F-16 þotur til Úkraínu og á þeim grunni að þær séu dýrar, það taki langan tíma að þjálfa flugmenn á þær og þar að auki gætu Rússar litið á sendingar herþotna sem stigmögnun.
Yfirvöld Í Bretlandi tilkynntu í vikunni að Bretar myndu þjálfa úkraínska hermenn í notkun F-16, þó þær séu ekki í notkun þar í landi.