Dapurt gengi Spánverja
Spánverjar riðu ekki feitum hesti frá Eurovision söngvakeppninni um síðustu helgi. Lag þeirra hafnaði í 17. sæti sem voru óneitanlega vonbrigði eftir glæsilegt 3. sæti í fyrra, en Spánverjar hafa ákveðið að blása til sóknar í keppninni eftir áratuga eyðimerkurgöngu mislélegra laga síðustu ára.
Stjórnendur spænska ríkissjónvarpsins eru engu að síður borubrattir og segja að þetta sé langhlaup en ekki spretthlaup, nokkuð sem íslenska þjóðin þekkir sjálf allt of vel. Jafnvel maraþon.
Segja sigurlag Svía vera spænskt
En mál málanna í spænskum fjölmiðlum eftir keppnina eru þó vangaveltur og ásakanir um að sigurlag Svía, Tattoo, sé í raun stolið frá spænsku sveitinni Pont Aeri, lagið Flying Free sem kom út á 10. áratugnum.
Eða hvað finnst lesendum?
Þarna má greinilega greina nokkur líkindi en þetta er langt frá því í fyrsta sinn sem sigurlag Eurovision er sagt vera stolið.
Tveir meðlimir hljómsveitarinnar hafa komið fram í fjölmiðlum í vikunni og segjast vera að íhuga að fara með málið fyrir dómstóla.
Er kannski búið að semja öll lög sem hægt er að semja?
Svo geta menn í raun velt því fyrir sér hvort ekki sé einfaldlega búið að semja öll lög sem hægt er að semja og allt sem samið er í dag, séu mismunandi útsetningar á einhverju sem til er fyrir. Því eins og Ed Sheeran benti nýlega á eftir að hafa verið sakaður og sýknaður af því að hafa stolið lagi Marvins Gay, Let´s get it on:
„Á hverjum degi eru gefin út 60.000 lög á Spotify, það gera 22 milljónir laga á ári. Og það eru bara til 12 nótur.“