Handbolti

Kristján skoraði fimm í sigri

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kristján Örn Kristjánsson undirbýr þrumuskot í sigri Íslands gegn Brasilíu á HM í janúar.
Kristján Örn Kristjánsson undirbýr þrumuskot í sigri Íslands gegn Brasilíu á HM í janúar. VÍSIR/VILHELM

Kristján Örn Kristjánsson skoraði fimm mörk fyrir lið Aix sem vann sigurorð af Cesson-Rennes í frönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld.

Kristján Örn og félagar hans sigla fremur lygnan sjó í deildinni en liðinu gekk afleitlega í upphafi tímabils eftir frábært gengi á síðustu leiktíð.

Liðið hefur þó verið að ná í sigra að undanförnu og Kristján Örn verið að spila vel. Í dag mætti liðið Cesson-Rennes sem var örlítið neðar í töflunni og því var búist við spennandi leik.

Leikurinn var jafn og spennandi í upphafi en undir lok fyrri hálfleiks náðu heimamenn í Aix góðu áhlaupi og leiddu 13-9 í hálfleik. Aix náði fimm marka forskoti í upphafi síðari hálfleiks en gestirnir í Cesson-Rennes bitu í skjaldarrendur og náðu að minnka muninn í tvö mörk um miðbik hálfleiksins.

Þá beit lið Aix frá sér á nýjan leik, náði mest sex marka forskoti þegar tæpar tíu mínútur voru eftir og eftir það var engin spurning hvoru megin sigurinn myndi enda. Lokatölur í kvöld 28-24.

Kristján Örn skoraði fimm mörk fyrir Aix í kvöld úr átta skotum og gaf eina stoðsendingu. 

Grétar Ari Guðjónsson lék í marki Sélestad sem tapaði fyrir St. Raphael á heimavelli í kvöld. Grétar Ari varði 8 skot í markinu en Sélestad vermir botnsæti deildarinnar og fátt sem kemur í veg fyrir fall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×