Edgars Rinkēvičs utanríkisráðherra Lettlands segir vestur Evrópu ekki hafa tekið mikið mark á viðvörunum NATO ríkja í austri við árásar- og landvinnigastefnu Rússa fyrr en eftir innrás þeirra í Úkraínu í febrúar í fyrra. Þá hafi loksins verið hlustað á viðvaranir þessara ríkja sem þekktu vel til kúgunartakta Rússa frá löngu nábyli við þá.

Nú bæri á því að sumir vildu friðþægjast við Rússa og töluðu um að enda þyrfti stríðið fljótlega. Það mætti hins vegar ekki frysta þá hernaðarastöðu sem nú væri, því þá muni Rússar ganga á lagið.
„Nokkur tími líður. Rússland lappar upp á her sinn og vopnvæðist á ný. Það kemur hernaðarvél sinni aftur á réttan kjöl, hervæðist og gerir árás á ný. Vegna þess að Rússland mun ekki hætta.“
Hann vari við því að Nato ríkin verði meðvirk málflutningi Rússa. Halda verði áfram að sjá Úkraínu fyrir öllu því sem landið þurfi til sigurs. Ekki væri hægt að treysta Rússum þar sem almenningur byggi ekki við frelsi og lýðræði og Rússland í raun einræðisríki.
„Við höfum séð að fjölmiðlafrelsi, sjálfstæði dómstóla, réttur fólks til að mótmæla, að stofna stjórnmálaflokk sem eru í raun óháðir var fyrir borð borinn fyrir mörgum árum. Þetta var stigvaxandi ferli.“
Vesturlönd hafi hundsað þessa þróun og megi ekki bregðast nú því Putin muni ganga eins langt og Vesturlönd hleypi honum. Úkraína hafi sýnt hversu megnug hún væri í vörnum gegn innrás Rússa og ætti heima í NATO.
Rinkēvičs telur ólíklegt að samstaða um þetta náist meðal aðildarríkjanna fyrir leiðtogafund NATO í Vilnius í júlí. Enn séu deildar meiningar. NATO ríkin verði hins vegar að leggja Úkraínu til vegvísi að aðild.
„Við erum að þrýsta á um skýra leið fyrir Úkraínu til að ganga í NATO. Skýr viðmið, skýran vegvísi. Við sjáum hvernig þetta gengur upp fyrir miðjan júlí,“ segir Edgars Rinkēvičs.