Handbolti

Logi Geirs ætlar að mæta til Eyja í þyrlu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Geirsson verður í hóp Seinni bylgju manna í Vestmannaeyjum á föstudagskvöldið en ferðast aðeins öðruvísi.
Logi Geirsson verður í hóp Seinni bylgju manna í Vestmannaeyjum á föstudagskvöldið en ferðast aðeins öðruvísi. Samsett/Getty/S2

Eyjamenn geta orðið Íslandsmeistarar í handbolta karla á föstudaginn og þá unnið titilinn í fyrsta sinn á heimavelli. Í hin tvö skiptin hefur Eyjaliðið sótt Íslandsbikarinn til Hafnarfjarðar en nú geta þeir lyft honum út í Vestmannaeyjum.

Logi Geirsson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar, var á leiknum á Ásvöllum í gærkvöldi og hann verður líka í Eyjum á föstudagskvöldið. Hann vakti athygli á því eftir leikinn í gær hvernig hann ætlar að mæta til Vestmannaeyja að þessu sinni.

„Strákar, ÍBV er bara einum leik frá því að sópa úrslitakeppninni,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar, í setti Seinni bylgjunnar eftir leik.

„Fara taplausir í gegnum hana. Það er rosalegt. Ég er að fara á föstudaginn og með þyrlu. Á ég ekki að taka bikarinn með mér í leiðinni,“ spurði Logi Geirsson léttur.

„Fæ ég að koma með,“ spurðu Arnar Daði þá strax.

„Já, það er pláss. Þórður Gunnþórs, þyrluflugmaður, sem er vinur minn ætlar að fljúga mér yfir en svo fer ég með ykkur heim,“ sagði Logi.

„Ég er ekki að fara um borð í Herjólf, alla vega ekki frá Þorlákshöfn. Aldrei aftur á minni lífsleið fer ég frá Þorlákshöfn,“ sagði Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður Seinni bylgjunnar. Hann og starfsmenn Stöðvar tvö þurftu að sigla til Þorlákshafnar eftir fyrsta leikinn og það í slæmum sjó.

Stöð 2 Sport verður að sjálfsögðu í Eyjum á föstudaginn og það er spurning hvort áhorfendur fái mynd af því þegar Logi mætir á þyrlunni.

Hér fyrir neðan má sjá strákana kveðja í gær og auglýsa líka áhugaverðan fyrirlestur hjá Þóri Hergeirssyni þjálfara heims- og Evrópumeistara Noregs.

Klippa: Seinni bylgjan: Logi um ferðalagið til Eyja



Fleiri fréttir

Sjá meira


×