Fyrir leik var ljóst að Messi og spænska varnartröllið Sergio Ramos myndu yfirgefa herbúðir PSG eftir tímabilið og voru þeir báðir í byrjunarliði liðsins í kvöld.
Ramos gerði sér lítið fyrir og skoraði fyrsta mark leiksins á 16. mínútu eftir stoðsendingu frá Vitinha og aðeins fimm mínútum síðar bætti Kylian Mbappé við öðru marki PSG úr vítaspyrnu.
Gestirnir í Clermont Foot rönkuðu þá við sér og náðu inn tveimur mörkum fyrir lok fyrri hálfleiksins og stóðu leikar því jafnir í hálfleik, 2-2.
Það var síðan á 63. mínútu sem Grejohn Kyei bætti við þriðja marki Clermont í leiknum og kom liðinu um leið yfir í fyrsta sinn en hann hafði í fyrri hálfleik brennt af vítaspyrnu.
Reyndist þetta lokamark leiksins og kvöddu því Messi og Ramos Parísarborg með tapi í lokaleik sínum.
Messi spilaði 41 leik á nýafstöðnu tímabili með PSG, skoraði 21 mark og gaf tuttugu stoðsendingar.