Hið minnsta sextán þúsund manns hafa þegar flúið og stjórnlaust vatnsstreymi er um svæðið eftir að Kakovka-stíflan á Dnípró-fljóti í Kherson-héraði brast í nótt. Farið var yfir stöðuna í kvöldfréttum Stöðvar 2, þar sem sjá má götur borgarinnar Nova Kahofka á bólakafi.
Í daglegu ávarpi sínu til úkraínsku þjóðarinnar sagði Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti að aðeins frelsun gjörvallrar Úkraínu gæti komið í veg fyrir að hryðjuverk Rússa í landinu héldu áfram.
„Slík eyðilegging af ásettu ráði á vatnsaflsvirkjuninni er umhverfislegt gjöreyðingarvopn,“ sagði forsetinn. Fyrr í dag sagði Oleksii Kuleba, háttsettur embættismaður á skrifstofu Úkraínuforseta, að árásin á stífluna væri glæpur Rússa gegn úkraínsku þjóðinni, náttúrunni og lífinu sjálfu. Reuters greinir frá.
Þá sagði forsetinn að saksóknarar á hans vegum hafi þegar haft samband við Alþjóðasakamáladómstólinn vegna málsins, en árásis á stíflur eru bannaðar samkvæmt Genfar-sáttmálanum.
Rússar hafa aftur á móti þvertekið fyrir að hafa nokkuð haft að gera með eyðileggingu stíflunar. Erindreki þeirra sagði á neyðarfundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem haldinn var í dag að beiðni bæði Rússa og Úkraínumanna, að Úkraínumenn sjálfir hefðu eyðilagt stífluna og sakaði þá um hættuleg herkænskubrögð og stríðsglæp.